10 ára neitað um fóstureyðingu

Í ljós kom að stúlkan, sem er 10 ára gömul, …
Í ljós kom að stúlkan, sem er 10 ára gömul, var komin 21 viku á leið þegar hún kom á sjúkrahús vegna kviðverkja. AFP

Tíu ára gamalli stúlku í Paragvæ hefur verið synjað um fóstureyðingu eftir að stjúpfaðir hennar nauðgaði henni. Í Paragvæ eru fóstureyðingar ólöglegar nema lífi verðandi móður sé í hættu. Stjórnvöld telja ekkert benda til þess að líf stúlkunnar sé í hættu en hún er komin 22 vikur á leið.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa tekið mál stúlkunnar fyrir og óska eftir stuðningi fólks við að aðstoða stúlkuna.

Þann 21. apríl síðastliðinn leitaði tíu ára stúlka ásamt móður sinni á Trinidad kvenna– og barnaspítalann í Asunción, höfuðborg Paragvæ, vegna verkja í kviði. Við skoðun kom í ljós að hún var barnshafandi, gengin 21 viku, segir á vef Amnesty International á Íslandi.

„Forstjóri spítalans viðurkenndi opinberlega að þungunin stefndi lífi og heilsu stúlkunnar í hættu en það virðist ekki duga til. Ekkert bendir til að spítalinn verði við þeirri beiðni að bjarga lífi stúlkunnar. Samkvæmt nýjustu heimildum hefur þessi barnunga stúlka verið send á miðstöð mæðraverndar fyrir ungar barnshafandi stúlkur,“ segir enn fremur á vef Amnesty.

Fjölmargir fjölmiðlar hafa fjallað um stúlkuna að undanförnu og kemur fram á CNN að í löggjöf Paragvæ sé ekkert tillit til þess að stúlkunni hafi verið nauðgað.

Yfirmaður Amnesty International, Guadalupe Marengo, segir að það jafnist á við pyntingar, andlegar sem líkamlegar, að láta svo unga stúlku ganga með barn sem hún vill ekki eignast.

Handtökuskipun hefur verið gefin út á hendur stjúpföðurnum sem er á flótta, að sögn saksóknara. Samkvæmt CNN hefur móðir stúlkunnar verið handtekin vegna málsins en hún verður væntanlega ákærð fyrir vanrækslu.

Netákall Amnesty International

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert