Eyðileggingin gríðarleg

Gríðarleg eyðilegging varð í jarðskjálftanum sem skók Nepal í síðasta mánuði. Í meðfylgjandi myndskeiði, sem Paul Borrud hjá UNICEF, Barnahjálp SÞ, tók úr flygildi má sjá hversu svæðið var illa útleikið fyrstu tvo sólarhringa eftir hamfarirnar.

Jarðskjálftinn varð 25. apríl sl. og hefur UNICEF verið á meðal þeirra hjálparsamtaka sem sinna umfangsmikilli neyðaraðstoð á jarðskjálftasvæðinu í Nepal. 

Börn eru hvað mest berskjölduð við neyðaraðstæður eins og nú eru á hamfarasvæðinu en um helmingur íbúa landsins eru börn.

Eins og sést í myndskeiðinu eru skemmdirnar á skjálftasvæðinu gríðarlegar og innviðir í rúst. Mörg börn hafast nú við undir berum himni eftir að heimili þeirra hrundu til grunna. Hreinlætisaðstaðan þar er af skornum skammti. Við slíkar aðstæður og þar sem fólk býr þétt saman geta bæði mislingar auðveldlega breiðst út sem og aðrir hættulegir sjúkdómar. 

UNICEF leggur því allt kapp á að bólusetja börn á neyðarsvæðinu og útvega hreint vatn og hreinlætisaðstöðu. Teppum, tjöldum og lyfjum hefur einnig verið dreift og mörg barnvæn svæði verið opnuð.

Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með því að senda sms-ið UNICEF í númerið 1900 og gefa þannig 1.500 krónur til neyðaraðgerðanna í Nepal. Söfnunin er enn í fullum gangi.

Hér má sjá hús í þorpinu Kerauja, sem er í …
Hér má sjá hús í þorpinu Kerauja, sem er í Gorkha-héraði, sem gjöreyðilögðust í jarðskjálftanum. Myndin var tekin í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert