Forstjóri dönsku leyniþjónustunnar hættur

Danskur lögreglumaður.
Danskur lögreglumaður. AFP

Jens Madsen, forstjóri dönsku leyniþjónustunnar PET, sagði af sér embætti í dag í tengslum við gagnrýni á viðbrögð lögreglu við hryðjuverkaárásunum í Kaupmannahöfn fyrr á þessu ári. Haft er eftir Madsen í frétt AFP að hann hafi eftir að hafa íhugað málið vandlega samið við dómsmálaráðuneytið og embætti ríkislögreglustjóra að taka að sér önnur verkefni innan lögreglunnar.

Fram kemur í fréttinni að yfirlýsing Madsens hafi borist nokkrum klukkustundum áður en niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar en þar kemur meðal annars fram að fjórar klukkustundir hafi liðið frá því að Omar El-Hussein skaut kvikmyndagerðarmann til bana fyrir utan menningarmiðstöð í Kaupmannahöfn þar til lögreglumenn mættu að helsta bænahúsi gyðinga í borginni þar sem karlmaður var síðan myrtur.

„Það er of langur tími, það er augljóslega ekki ásættanlegt. Það er ekki hægt að réttlæta það,“ sagði Mette Frederiksen dómsmálaráðherra á blaðamannafundi. Hún vildi hins vegar ekki svara því hvort afsögn Madsens tengdist gagnrýninni á lögregluna. Madsen var skipaður í embættið í janúar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert