Læsti 40 börn inni í skólarútu

Ringulreið myndaðist í rútunni þegar að bílstjórinn neitaði að opna …
Ringulreið myndaðist í rútunni þegar að bílstjórinn neitaði að opna hurðina. Skjáskot af vef CBS

Lögregla í Arizona rannsakar nú rútubílstjóra í fylkinu en hann hefur verið ásakaður um það að læsa óþekk börn inni í skólarútu. Bílstjórinn heldur því fram að hann hafi læst börnin inni því þau voru of hávær og óþekk. Foreldrar barnanna sem biðu á rútustöðinni eftir börnum sínum og sáu börn sín læst inn í rútunni, voru á því að refsing bilstjórans væri ósanngjörn.

CBS segir frá þessu. 

Á upptöku eftirlitsmyndavélar má sjá ringulreiðina sem myndast þegar að bílstjórinn læsti börnin inni. Þau grétu og sárbáðu bílstjórann um að hleypa sér út. Sum börn tróðu sér fremst og reyndu að komast út um hurðina sem bílstjórinn neitaði að opna.

„Sjáið, foreldrar ykkar eru að verða óróleg. Ef þið brjótið hurðina kaupið þið nýja,“ sagði bílstjórinn og kallaði síðan til foreldranna: „Börnin ykkar komast úr rútunni þegar ég er búinn með þau.“

Tæplega fjörtíu börn voru inni í rútunni þegar að henni var læst. Sumir foreldrar reyndu að losa hurðina á meðan aðrir hringdu í Neyðarlínuna. 

„Hann neitar að hleypa börnunum okkar út,“ sagði Adam Kautman í samtali við Neyðarlínuna. „Börnin eru að gráta. Hann er að öskra á okkur.“

Eftir nokkrar mínútur á rútustöðinni keyrði bílstjórinn af stað. „Hann er að keyra í burtu með öll börnin okkar,“ sagði Kautman þá, augljóslega í uppnámi. 

Bílstjórinn keyrði börnin aftur í skólann þar sem þeim var hleypt út. Ekkert þeirra slasaðist. 

Umdæmi skólans hefur hafið rannsókn á málinu. Bílstjórinn er kominn í tímabundið leyfi frá störfum. Sumir foreldrar voru á því að það sé einfaldlega ekki nóg. 

„Þeir bera ábyrgð á lífum allra þessara barna og að þau komist örugg heim, og hann gerði einmitt andstæðuna við það,“ sagði Kautman. 

Samkvæmt upplýsingum frá yfirkennara skólans hefur bílstjórinn nú sagt upp starfi sínu hjá skólanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert