Pitsapöntun bjargaði konunni

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Pöntun á pitsu varð til þess að bandarískri konu var komið til bjargar á mánudaginn þar sem henni var haldið fanginni af unnusta sínum. Frá þessu er greint í frétt AFP en fólkið er búsett í Flórída-ríki í Bandaríkjunum. 

Fram kemur í fréttinni að unnusti Cheryl Treadway hafi meinað henni og þremur börnum hennar að yfirgefa heimili hennar og ógnað þeim með hnífi. Unnustinn, Ethan Nickerson, tók meðal annars af henni símann en lét hana fá hann aftur í skamma stund svo hún gæti pantað pitsu með þar til gerðu appi. Notaði hún tækifærið og sendi skilaboð til Pizza Hut um að henni væri haldið fanginni. „Hjálpið mér! Hafið samband við neyðarlínuna,“ stóð í skilaboðunum.

Lögreglan var í kjölfarið send á staðinn. Eftir 20 mínútur tókst að sannfæra Nickerson um að gefast upp og sleppa Treadway og börnunum. „Við höfum aldrei upplifað neitt þessu líkt,“ er haft eftir Candy Hamilton, framkvæmdastjóra hjá Pizza Hut. „Ég hef unnið hérna í 28 ár og ég hef aldrei nokkurn tímann áður upplifað að svona skilaboð væru send til okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert