Greiða bætur fyrir pyntingar

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Borgarráð Chicago samþykkti í gær að greiða 5,5 milljónir Bandaríkjadala, 723 milljónir króna, í bætur til tugi manna sem voru pyntaðir af lögreglu í borginni á tímabilinu 1972til  1991, að því er segir í frétt Chicago Tribune. Flestir mannanna eru svartir.

Allt að eitt hundrað menn voru pyntaðir af lögreglu, undir stjórn lögreglustjórans Jon Burge, í þeirri von að ná fram játningum frá þeim. Borgarstjórinn í Chicago, Rahm Emanuel , segir að þetta sé mikilvægt skref í rétta átt, að leiðrétta ranglætið og þvo burt svartan blett á borginni. Borgin sýni þann styrk að játa mistök og að ranglæti hafi verið beitt. 

Margir þeirra sem voru pyntaðir af lögreglu koma úr suðurhluta borgarinnar og hafa þeir barist áratugum saman fyrir því að borgaryfirvöld viðurkenni að þeir hafi verið pyntaðir. 

Meðal þess sem var samþykkt á fundi borgarstjórnar í gær er að borgin biðji mennina formlega afsökunar og greiði þeim bætur, svo sem ráðgjöf og námsstyrki.

Steven Hawkins, framkvæmdastjóri Amnesty International í Bandaríkjunum, segir að Chicago borg hafi með þessu stigið sögulegt skref þar sem viðurkennt er að pyntingar eru viðurstyggilegur glæpur.

Samkvæmt Amnesty voru grunaðir sem voru í haldi lögreglu beittir hrottalegu ofbeldi. Svo sem raflosti á kynfæri og aðra líkamshluta, reynt að kæfa þá og líkt eftir aftökum. Eins voru þeir barðir og níddir á ýmsa vegu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert