Ónáða Vilhjálm og Katrínu í Norfolk

Þessi mynd var tekin 20. apríl á síðasta ári. Nú …
Þessi mynd var tekin 20. apríl á síðasta ári. Nú hefur Karlotta Elísabet Díana bæst í hópinn. AFP

Lögregla í Norfolk í Bretlandi, þar sem Vilhjálmur og Katrín dvelja á sveitasetri sínu ásamt börnum sínum, hefur beðið ljósmyndara um að áreita ekki fjölskylduna.

Ljósmyndurunum voru afhent bréf þess efnis eftir nokkurn átroðning fólks með langar linsur í kringum lóð setursins.

Í bréfinu er fólkið beðið um að virða einkalíf fjölskyldunnar og er það minnt á að um einkalóð er að ræða. Eru ljósmyndararnir sagðir hafa notað aðdráttarlinsur sínar til að fylgjast með konungsfjölskyldunni og festa hana á filmu.

Þá segir einnig að ljósmyndararnir hafi brugðist vel við fyrri beiðnum um að halda sig fjarri en nú þyki ástæða til að senda aftur út áminningu á ný. 

Fjölskyldan dvaldi fyrstu dagana í Kensington-höll en er nú komin á sveitasetrið þar sem þau munu dvelja í nokkrar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert