Tvísýnar kosningar í Bretlandi

Um 50 milljónir Breta ganga að kjörborðinu í dag en kjörstaðir opnuðu klukkan sjö að enskum tíma, klukkan 6 að íslenskum tíma. Alls er kosið um 650 þingsæti í neðri málstofu breska þingsins. Jafnframt er verið að kjósa um 9 þúsund bæjarstjórnarsæti í 279 bæjum og sveitarfélögum.

Borgarstjórar verða einnig kjörnir í Bedford, Copeland, Leicester, Mansfield, Middlesbrough og Torbay.

Það þýðir að flestir kjósendur, fyrir utan Lundúnabúa, fá í hendurnar tvo kjörseðla í dag.

Bogi Þór Arason skrifar ítarlega grein um kosningarnar í Bretlandi í Morgunblaðið í dag. Þar kemur meðal annars fram að kosningarnar eru þær tvísýnustu í áratugi og búist er við löngum og erfiðum viðræðum um myndun næstu ríkisstjórnar ef enginn flokkur fær meirihluta í neðri málstofu þingsins, eins og fylgiskannanir benda til.

Ef marka má síðustu kannanir er lítill munur á fylgi Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins og mikil óvissa er um skiptingu þingsætanna vegna kosningakerfisins sem byggist á einmenningskjördæmum. Sá flokkur sem fær flest atkvæði í hverju kjördæmi hreppir þingsætið og öll önnur atkvæði falla dauð. Þetta veldur því að þótt UKIP, Breska sjálfstæðisflokknum, sé spáð 14% kjörfylgi er útlit fyrir að hann fái aðeins 2-3 þingsæti vegna þess að atkvæðin dreifast á mörg kjördæmi. Skoska þjóðarflokknum er hins vegar spáð 52 skoskum þingsætum þótt fylgi hans mælist aðeins tæp 4% í könnunum sem ná til alls Bretlands.

Biðlað til fylgismanna UKIP

Íhaldsflokkurinn, undir forystu Davids Camerons forsætisráðherra, fékk 307 þingsæti í síðustu kosningum en honum er nú spáð 279 sætum, að því er fram kemur á kosningavef The Telegraph. Til að ná meirihluta þingsæta þarf flokkurinn að fá 326 sæti, eða 323 ef norður-írski flokkurinn Seinn Fein heldur fimm þingsætum sínum en neitar að starfa á breska þinginu eins og hann hefur gert. Frjálslyndir demókratar, sem eru í stjórn Camerons, hafa misst mikið fylgi og þeim er spáð 28 sætum, en Íhaldsflokkinn vantar 44 sæti til að geta myndað meirihlutastjórn samkvæmt spánni.

Verkamannaflokknum er spáð 266 til 276 þingsætum og hann vantar 50 til 60 sæti til að ná meirihluta, ef marka má síðustu fylgiskannanir. Gangi spárnar eftir er hugsanlegt að Verkamannaflokkurinn geti myndað ríkisstjórn með einhvers konar stuðningi Skoska þjóðarflokksins sem spáð er 52 sætum.

Græningjar (með eitt sæti) og velski flokkurinn Plaid Cymru (fjögur sæti) hafa einnig léð máls á því að styðja ríkisstjórn undir forystu Eds Milibands, leiðtoga Verkamannaflokksins.

Umræðan í bresku fjölmiðlunum um kosningabaráttuna hefur að miklu leyti snúist um það hvers konar ríkisstjórn verði mynduð ef enginn flokkanna fær meirihluta. Íhaldsmenn hafa lagt áherslu á að Bretlandi stafi mikil hætta af mögulegu stjórnarsamstarfi Verkamannaflokksins og Skoska þjóðarflokksins sem barðist fyrir því að Skotar samþykktu sjálfstæði frá Bretlandi í þjóðaratkvæði 18. september. Íhaldsmenn hafa því biðlað til kjósenda, sem hallast að UKIP, og lagt kapp á að fá þá til að kjósa Íhaldsflokkinn til að koma í veg fyrir að Skoski þjóðarflokkurinn komist í oddaaðstöðu á breska þinginu.

 Flokkarnir hnífjafnir í skoðanakönnunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert