Cameron leggur upp skákina

Forsætisráðherrann ávarpar þjóðina fyrir utan Downing-stræti í gær.
Forsætisráðherrann ávarpar þjóðina fyrir utan Downing-stræti í gær. AFP

Þau eru ófá verkefnin sem bíða David Cameron forsætisráðherra eftir þingkosningarnar á fimmtudag, en um helgina hyggst hann einbeita sér að því að manna nýja ríkisstjórn. Cameron hefur þegar tilkynnt að Theresa May, Philip Hammond og Michael Fallon halda embættum sínum í innanríkisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og varnarmálaráðuneytinu, og þá verður George Osborne áfram fjármálaráðherra.

Osborne hefur einnig verið útnefndur „first secretary of state“, sem er nokkurs konar heiðurtitill æðsta ráðherra og nánasta samstarfsmanns forsætisráðherra. William Hague bar titilinn í síðustu ríkisstjórn.

Þar sem Íhaldsflokkurinn vann hreinan meirihluta sæta í kosningunum, liggur fyrir Cameron að skipa í þau embætti sem féllu í hlut Frjálslyndra demókrata eftir kosningarnar 2010. Þeirra á meðal eru embætti ráðherra viðskipta- og orkumála.

Þá þarf hann að taka ákvörðun um hlutverk Boris Johnson, en hann á enn eftir eitt ár í sæti borgarstjóra Lundúna.

BBC hefur tekið saman þróun mála í kjölfar kosninganna, en þar kemur m.a. fram að metfjöldi kvenna og fulltrúa þjóðlegra minnihlutahópa mun taka sæti á nýju þingi; 191 og 42.

Þá hafa Chuka Umunna, Andy Burnham og Yvete Cooper verið nefnd sem mögulegir arftakar Ed Miliband, og Tim Farron og Norman Lamb sem mögulegir eftirmenn Nick Clegg. Nigel Farage, fráfarandi leiðtogi Ukip, hefur mælst til þess að Suzanne Evans taki við flokknum þegar hann lætur af embætti.

Eitt af stóru málunum sem bíður David Cameron eru viðræður við Evrópusambandið um hagstæðari aðildarskilmála til handa Bretum. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, hefur sagt að hann muni eiga uppbyggilegt samstarf við nýja ríkisstjórn.

Sagt hefur frá því að Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, muni funda með 56 þingmönnum flokksins í Edinburgh. Gert er ráð fyrir að flokkurinn muni fara fram á aukin völd fyrir skoska þingið, en Cameron ítrekaði í gær að hann myndi uppfylla öll þau loforð sem gefin voru í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um aðskilnað Skotlands frá Bretlandi.

Úrslit kosninganna voru gríðarleg vonbrigði fyrir Ed Miliband, leiðtoga Verkamannaflokksins, …
Úrslit kosninganna voru gríðarleg vonbrigði fyrir Ed Miliband, leiðtoga Verkamannaflokksins, og Nick Clegg, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, en síðarnefndi flokkurinn var allt að því þurrkaður út. AFP
Cameron snýr aftur er höfuð fjúka.
Cameron snýr aftur er höfuð fjúka. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert