Lét taka ráðherra af lífi

Kim Jong-un.
Kim Jong-un.

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Un, hefur látið taka varnarmálaráðherra landsins af lífi fyrir að hafa sýnt af sér óhlýðni og að hafa sofnað yfir hersýningu.

AFP fréttastofan hefur þetta eftir leyniþjónustu Suður-Kóreu sem ýjar að því að farið sé að bera á óhlýðni meðal yfirmanna í landinu.

Ef satt reynist þá er þetta í annað skiptið á tveimur árum sem Kim Jong-Un lætur taka af lífi náinn samstarfsmenn sem er grunaður um ótryggð. En árið 2013 lét hann taka einn af nánustu samstarfsmönnum sínum, og frænda, Jang Song-Thaek af lífi.

Í síðustu viku hætti Kim Jong-Un við fyrirhugaða heimsókn til Moskvu og er talið að þetta geti tengst valdabaráttu á toppnum í einræðisríkinu.

Aðstoðarforstjóri leyniþjónustu Suður-Kóreu sagði á fundi með þingi landsins í dag að hundruð hafi verið viðstödd þegar varnarmálaráðherrann, Hyon Yong-Chol, var tekinn af lífi þann 30. apríl sl. með loftvarnarbyssum. Hyon hafði gegnt embættinu í tæpt ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert