Gleymdur harmleikur

Amira fæddist í Yarmouk og er aðeins tveggja mánaða gömul. …
Amira fæddist í Yarmouk og er aðeins tveggja mánaða gömul. Samkvæmt UNRWA þjást 20% barna frá Yarmouk, yngri en fimm ára, af næringarskorti. AFP PHOTO/RAMI AL-SAYED/UNRWA.ORG

Yarmouk var eitt sinn blómlegt úthverfi Damaskus, þar sem 160.000 palestínskir flóttamenn og Sýrlendingar áttu heimili. Þrátt fyrir að oftsinnis væri talað um Yarmouk sem flóttamannabúðir, var hverfið ekki opinberlega skilgreint sem slíkt, enda hvergi að sjá hefðbundin ummerki slíkra búða.

Eftir viðstöðulaus átök í Sýrlandi hefur það breyst. Íbúar Yarmouk telja nú aðeins 18.000, þar af 3.500 börn. Hverfið hefur verið einangrað frá umheiminum, skólum og heilbrigðisstofnunum lokað, og aðgangur að vatni og mat af skornum skammti.

Hinn 1. apríl sl. réðust vopnaðir hópar inn í Yarmouk. Samkvæmt neyðarákalli Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) þora íbúar ekki út fyrir hússins dyr til að leita sér lífsnauðsynlegra aðfanga, og þúsundir eru án aðstoðar. UNRWA hefur biðlað til alþjóðasamfélagsins um fjármagn og þá hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktað um málið.

Stórir hlutar Yarmouk eru á valdi liðsmanna Ríkis íslam. Einn íbúa sagði í samtali við blaðamann Guardian í apríl að verið væri að „útrýma“ búðunum, en margir íbúa þjást af næringarskorti, lifrarsjúkdómum og öðrum sjúkdómum tengdum neyslu mengaðs vatns.

„Ástandið er hörmulegt,“ sagði Ahmad, sem vildi ekki koma fram undir eigin nafni. „Það er enginn matur né rafmagn né vatn, Daesh [arabísk skammstöfun fyrir Ríki íslam] myrða og ræna í búðunum, það eru átök, það eru sprengingar.“

Hann sagði að um leið og liðsmenn Ríkis íslam hefðu ráðist inn í búðirnar hefðu þeir brennt palestínska fánann og afhöfðað almenna borgara. Ástandið var slæmt fyrir, þar sem íbúar höfðu verið innilokaðir vegna átaka, en það hafi versnað þegar hryðjuverkamennirnir mættu á staðinn, stálu læknagögnum og hófu handahófskenndar sprengjuárásir.

Margir íbúar Yarmouk upplifa að þeir hafi verið yfirgefnir af Arabaheiminum og alþjóðasamfélaginu. Þeir finna til depurðar og finnst þeir hafa verið sviknir. Einn aðgerðasinni sem flúði búðirnar hafði á orði að um væri að ræða siðferðilega og mannúðarlega krísu.

Palestínskir embættismenn heimsóttu Sýrland í byrjun maí til að ræða ástandið í Yarmouk. Þeir funduðu m.a. með aðstoðarutanríkisráðherra Sýrlands og félagsmálaráðherra landsins. Meðal þess sem var rætt voru leiðir til að gera búðirnar að hlutlausu svæði og halda þeim utan átakanna í landinu.

Anwar Abdel Hadi, talsmaður Frelsissamtaka Palestínu (PLO), sagði þá í samtali við AFP að íbúar Yarmouk væru nú aðeins 7.000 talsins. Lífið í búðunum væri allt að því óbærilegt og þúsundir hefðu flúið og dveldu í neyðarskýlum í höfuðborginni, á meðan bardagar geisuðu milli liðsmanna Ríkis íslam og palestínskra flokksbrota.

Engar fregnir hafa borist um að ástandið hafi batnað, þrátt fyrir umleitanir í þá átt.

Frétt mbl.is: Ástandið ómannlegt

Frétt mbl.is: Réðust inn í flóttamannabúðir

Börn sækja óhreint vatn í Yarmouk.
Börn sækja óhreint vatn í Yarmouk. AFP
Íbúar Yarmouk, sem flúið hafa heimili sín, standa í röð …
Íbúar Yarmouk, sem flúið hafa heimili sín, standa í röð og bíða eftir neyðaraðstoð í Yalda. AFP PHOTO/HO/UNRWA.ORG
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert