Drógu sér fé ætlað krabbameinssjúkum

AFP

Fjögur góðgerðarfélög eru sökuð um að hafa nýtt 187 milljónir Bandaríkjadollara, sem hefðu með réttu átt að renna til aðstoðar krabbameinssjúkum, til að greiða fyrir himinhá laun, lúxusferðir og ýmsar vörur fyrir starfsfólk stofnananna.

Yfirvöld í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna auk alríkisráðs viðskiptamála (FTC) hafa kært stofnanirnar fyrir að vera „gervigóðgerðarfélög“ og lauma meirihluta styrkja í vasa stjórnenda, fjölskyldna þeirra og vina.

„Þetta er ein stærsta aðgerð sem gerð hefur verið til þessa dags gegn góðgerðarsvindli,“ segir í tilkynningu frá alríkisráðinu.

Félögunum er öllum stjórnað af hópi sem tengist fjölskylduböndum og nánum vinum þeirra. Hópurinn hélt því fram að það fjármagn sem hann safnaði rynni til lyfjakaupa fyrir krabbameinssjúka og í lækniskostnað. Í stað þess mökuðu stjórnendurnir krókinn með svindlinu sem hófst árið 1987. Mun framlögum almennings og fyrirtækja meðal annars hafa verið eytt í bílakaup, ferðalög, snekkjusiglingar, skólagjöld, líkamsrækt, íþróttaviðburði, tónleika og jafnvel í áskrift að stefnumótasíðum.

Fólk sem starfaði við að safna fé fyrir félögin fékk oft allt upp í 85% af hverju því framlagi sem safnaðist.

Aðeins 3% þess fjármagns sem safnaðist rataði raunverulega til krabbameinssjúkra.

Félögin heita The Cancer Fund of America (CFA), Cancer Support Services (CSS), The Children's Cancer Fund of America (CCFOA) og The Breast Cancer Society (BCS).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert