Dani sem má ekki koma til Bretlands

Frá Árósum.
Frá Árósum. AFP

22 ára karlmaður, sem má ekki koma til Bretlands vegna gruns um þátttöku í hryðjuverkastarfsemi, býr í Árósum í Danmörku og virðist vera frjáls ferða sinna innan landa Evrópusambandsins.

Maðurinn heitir Ahmed Halane og er danskur ríkisborgari. Hann er grunaður um að hafa barist með herskáum hópum í Sýrlandi og Sómalíu. Hann á tvær yngri systur en talið er að þær hafi farið til Sýrlands síðastliðið sumar til að ganga í hjónaband með liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna íslamska ríkisins. 

Halane fæddist í Danmörku en flutti síðar með fjölskyldu sinni til Manchester í Bretlandi. Hann þekkir marga íbúa borgarinnar sem grunaðir eru um þátttöku í hryðjuverkastarfsemi, meðal annars þá Nur Hassan og Mohammed Javeed sem ferðuðust til Sýrlands síðla árs 2013 til að berjast með íslamska ríkinu. 

Heimildir herma að bresk stjórnvöld hafi farið að fylgjast með honum eftir að í ljós kom að hann hlustaði á öfgafullar ræður á internetinu, þar á meðal ræðu sem Anwar Al-Awlaki, íslamskur klerkur og leiðtogi hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, flutti.

Systur Halane eru sautján ára gamlar. Talið er að eiginmenn þeirra séu báðir látnir og að þeir hafi fallið í baráttu sinni fyrir íslamska ríkið.

Blaðamaður Newsbeat hafði upp á Halane í Árósum og sagðist hann í samtali við blaðamanninn ekki hafa spjallað við systur sínar nýlega þar sem þær hefðu ekki verið á internetinu í mánuð.

Hann kemur reglulega í mosku í Árósum þar sem þátttakendur eru sagðir hvetja ungt fólk til að fara að berjast í Sýrlandi. Að sögn danskra yfirvalda höfðu 22 af íbúum Árósa sem fóru til Sýrlands á síðasta ári sótt athafnir í þessari tilteknu mosku.

Hér má lesa nánar um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert