Fjórfalt morð vekur óhug í Washington

Morðin hafa vakið mikinn óhug í Washington.
Morðin hafa vakið mikinn óhug í Washington. AFP

Lögregla í Washington í Bandaríkjunum hefur borið kennsl á mögulegan morðingja auðugrar fjölskyldu, eftir að hafa fundið erfðaefni á pítsu sem fannst á vettvangi. Daron Dylon Wint er eftirlýstur í tengslum við morðin fjögur, en um er að ræða einn alræmdasta glæp borgarinnar á síðustu árum.

Sawas Savopoulos, forseti og stjórnarformaður American Iron Works, eiginkona hans Amy, sonur þeirra Philip, 10 ára, og ráðskona þeirra, Veralicia Figueroa, voru myrt í stórhýsi fjölskyldunnar í einu af fínni hverfum borgarinnar.

Lík þeirra fundust bundin og marin í rústum heimilisins, sem eyðilagðist í eldi 14. maí. Talið er að um íkveikju hafi verið að ræða.

Blár Porsche Savopoulos, sem hafði verið stolið, fannst skömmu eftir morðin. Hafði bifreiðin verið yfirgefin á bílaplani við nálæga kirkju og eldur borinn að henni, að sögn yfirvalda.

Washington Post sagði frá því í dag að ný vísbending hefði komið fram í málinu eftir að lögregla fann erfðaefni Wint, 34 ára, á skorpu pítsu frá Domino's, sem var heimsend 13. maí. Talið er að þegar pítsan barst á heimili fjölskyldunnar, hafi fjölskyldunni verið haldið í gíslingu.

Svo virðist sem persónulegur aðstoðarmaður Savopoulos hafi senst með 40 þúsund dollara í reiðufé að heimili fjölskyldunnar skömmu áður en kveikt var í því.

Að sögn lögreglu er ekki talið útilokað að Wint hafi átt samverkamenn. Rannsókn hennar beinist m.a. að því hvort glæpurinn tengist viðskiptaveldi Savopoulos.

Ofbeldisfullur glæpurinn hefur valdið skelfingu í borginni, ekki síst vegna þess að glæpir af þessu tagi eru fátíðir í þeim hluta borgarinnar þar sem morðin áttu sér stað. Í hverfinu er að finna fjölda sendiráða og heimili sendifulltrúa, en meðal íbúa eru Joe Biden varaforseti Bandaríkjanna og eiginkona hans.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="290" mozallowfullscreen="" scrolling="no" src="http://www.washingtonpost.com/posttv/c/embed/75b1124c-ff80-11e4-8c77-bf274685e1df" webkitallowfullscreen="" width="480"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Washington Post.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert