Fundu lík á jökli 42 árum síðar

Tasman jökullinn.
Tasman jökullinn. Af Wikipedia

Lögreglan í Nýja Sjálandi hefur nú borið kennsl á lík göngumanns sem lá frosið á jökli í yfir fjóra áratugi. 

Hinn 19 ára gamli David Erik Moen, lenti í snjóflóði á Tasman jöklinum á eyjunni í september árið 1973. Leitarmönnum tókst ekki að finna lík hans og var leit hætt nokkru síðar. 

Það var ekki fyrr en í janúar á þessu ári sem líkamsleifar fundust á svæðinu, og voru þær teknar til DNA athugunar sem leiddi í ljós að líkið var af Moen. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var líkið mjög vel farið þrátt fyrir að hafa legið á jöklinum í 42 ár.

Báðir foreldrar Moen eru látnir, faðir hans fyrir aðeins nokkrum mánuðum síðan, en eftirlifandi fjölskyldumeðlimir hans hafa gefið út yfirlýsingu þar sem þeir þakka lögreglu. 

„Við getum ekki útskýrt með orðum hvernig það er að hafa David loks hjá okkur aftur eftir allan þennan tíma en það tekur okkur þó til baka til þess tíma sem hann hvarf árið 1973.“

„Andi Davids lifir enn á fallega, friðsæla svæðinu sem tók líf dásamlegs og heittelskaðs ungs manns í blóma lífsins.“

Lögregla rannsakar nú einnig annað lík sem fannst á svipuðum slóðum í mars. 

Andrew Hobman, snjóflóðasérfræðingur, sagði ekki óalgengt að lík fólks sem létist í snjóflóðum á jöklum kæmi ekki í ljós fyrr en mörgum árum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert