Lögregla bjargaði hundi frá drukknun

Hér má sjá hundinn berjast fyrir lífi sínu.
Hér má sjá hundinn berjast fyrir lífi sínu. Skjáskot af Youtube

Lögreglumenn í Kólumbíu sýndu snarræði á dögunum þegar þeir björguðu lífi hunds sem var við það að drukkna í á sem flætt hafði uppúr í kjölfar aurskriðu.

Í myndbandi af björguninni, sem hefur verið birt af lögreglunni í Kólumbíu má sjá dýrið berjast um í ánni sem heitir Liboriana og er í fjallabænum Salgar.

Hópur lögreglumanna hlupu meðfram ánni og í myndbandinu heyrist á einum tímapunkti kallað „hoppaðu út í“.

Einn lögreglumaður stekkur út í og nær haldi á hundinum og dregur hann með sér að bakkanum. Á myndbandinu má sjá hvernig samstarfsfélagi lögreglumannsins hefst strax handa við endurlífgunaraðgerðir. Tveir lögreglumenn bættust í hópinn og hættu ekki fyrr en hundurinn rankaði við sér. Notaði einn þeirra m.a. „munn við munn“ aðferðina. 

Samkvæmt frétt Sky News er talið að hundurinn muni jafna sig að fullu. Að minnsta kosti 78 létu lífið í aurskriðunni sem er talin vera verstu náttúruhamfarir í Kólumbíu í fimmtán ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert