Vísuðu andlega veikum manni úr landi

Manninum var vísað úr landi á þeirri forsendu að öðrum …
Manninum var vísað úr landi á þeirri forsendu að öðrum stæði ógn af honum. mbl.is/Golli

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur gagnrýnt ákvörðun kanadískra stjórnvalda að vísa andlega veikum manni úr landi. Maðurinn er frá Jamaíka en hefur búið í Kanada í þrjá áratugi. Forsenda brottvísunarinnar var sögð glæpahneigð mannsins, sem hefur m.a. hlotið dóm fyrir vopnaða árás.

Audley Horace Gardner, 54 ára, fluttist til Kanada 18 ára gamall og var greindur með ofsóknargeðklofa (paranoid schizophrenia) árið 1993. Mannréttindaráðið segir að brottvísun hans úr landi hafi svipt hann þeim stuðningi sem hann reiddi sig á frá fjölskyldu og hann fái ekki viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Ráðið hefur kallað eftir því að Kanada heimili Gardner að snúa aftur til landsins ef hann óskar þess og að honum verði greiddar bætur.

Yfirvöld í Kanada sögðu að ákvörðunin hefði verið í hlutfalli við alvarleika glæpa Gardner og vegna þeirrar ógnar sem af honum stæði. Mannréttindaráðið viðurkenndi að yfirvöld hefðu rétt til að grípa til ráðstafana til að vernda almenning, en lögðu áherslu á að viðurkennt hefði verið að rekja mætti glæpi Gardner til andlegrar heilsu hans.

Gardner var borinn út af heimili sínu árið 2005 og að sögn sérfræðinga átti hann í kjölfarið erfitt með að nálgast nauðsynleg lyf. Heilsu hans hrakaði af þeim sökum.

Að sögn nefndarinnar braut ákvörðun yfirvalda gegn ákvæði alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, þar sem segir að einstaklingar skuli ekki látnir sæta pyntingum né grimmdarlegri, ómanneskjulegri eða niðurlægjandi meðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert