Grunaður um fjórfalt morð í Washington

Daron Dylon Wint hefur nú verið handtekinn.
Daron Dylon Wint hefur nú verið handtekinn. AFP

Maður sem er grunaður um að tengjast fjórföldu morði í Washington borg í Bandaríkjunum hefur nú verið handtekinn. Maðurinn heitir Daron Dylon Wint og er 34 ára gamall. Hann var handtekinn í norðaustur hluta borgarinnar um klukkan 11 í gærkvöldi að staðartíma.

Sky News segir frá þessu.

Wint hefur verið ákærður fyrir morðin á Sawas Sa­vopou­los, for­seta og stjórn­ar­formanni American Iron Works, eig­in­konu hans Amy, syni þeirra Phil­ip, 10 ára, og ráðskonu þeirra, Ver­alicia Figu­eroa. Þau voru myrt á heimili þeirra í Woodley Park hverfi borgarinnar 13. maí síðastliðinn. Hverfið er þekkt fyrir fjölmörg sendiráð og er heimili varaforseta Bandaríkjanna rétt hjá húsinu. 

Lögregla hefur ekki gefið upp mögulegar ástæður þess morðanna. Þrjú fórnarlambanna voru stungin eða lamin áður en kveikt var í húsinu.

Lögregla gaf þó upp í gær að Wint hafi eitt sinn starfað fyrir fyrirtæki Savopoulos, American Irown Works. Lögregla hefur ekki útilokað að fleiri aðilar tengist morðunum.

Fluttist til Bandaríkjanna árið 2000

Wint fæddist og ólst upp í Guyana í Suður Ameríku. Hann fluttist til Bandaríkjanna árið 2000 en þá var hann tæplega tvítugur. Hann gekk til liðs við landgöngulið Bandaríkjahers sama ár en var leystur frá störfum vegna veikinda. Síðan þá hefur hann starfað við logsuðu. 

Smáskilaboð og talhólfsskilaboð frá fjölskyldunni til starfsmanna þeirra gefa til kynna að eitthvað undarlegt hafi verið í gangi í húsinu klukkustundum áður en lík þeirra fundust. Blá Porsche bifreið fjölskyldunnar fannst í úthverfi í Maryland fylki nokkrum klukkustundum eftir morðin. Kveikt hafði verið í bifreiðinni.

Lögregla tengdi Wint við glæpinn eftir að erfðaefni hans fannst á skorpu pítsu frá Dom­in­o's, sem var heimsend 13. maí. Talið er að þegar píts­an barst á heim­ili fjöl­skyld­unn­ar, hafi fjöl­skyld­unni verið haldið í gísl­ingu.

Árið 2009 var Wint dæmdur fyrir að ráðast á kærustu sína. Ári seinna viðurkenndi hann að hafa hótað að drepa konu og dóttur hennar. Sama ár var hann handtekinn fyrir að vera með sveðju og skammbyssu fyrir utan höfuðstöðvar American Iron Works. En ákæran var felld niður eftir að hann viðurkenndi að hafa einnig verið með opna dós af áfengi. 

Robin Ficker var verjandi Wint í þessum fyrri málum. Í samtali við fjölmiðla sagði hann að Wint hafi ekki litið út fyrir að vera ofbeldisfullur.

Fékk undarleg skilaboð frá fjölskyldunni

Kona sem starfaði sem húshjálp á heimili Savopoulos fjölskyldunnar í tuttugu ár telur að fjölskyldan hafi verið haldið í gíslingu á heimili sínu í tæpan sólarhring áður en þau voru myrt. Hún heitir Nelitza Gutierrez og hefur sýnt lögreglu undarleg skilaboð í talhólfi sínu frá Savopolous og smáskilaboð frá konu hans, þar sem hún var beðin um að koma ekki á heimilið. 

Hjónin áttu jafnframt vær unglingsstúlkur sem eru nemendur í heimavistarskóla. Þær voru ekki á heimilinu þegar morðin voru framin. 

Fyrri frétt mbl.is:
Hús fjölskyldunnar stendur í Woodley Park hverfi borgarinnar.
Hús fjölskyldunnar stendur í Woodley Park hverfi borgarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert