Hollendingar banna búrkuna að hluta

Hollensk kona klæðist búrku.
Hollensk kona klæðist búrku. AFP

Hollenska ríkisstjórnin hefur samþykkt lagafrumvarp sem bannar hina íslömsku búrku í skólum, á sjúkrastofnunum og í almenningssamgöngum. Bannið nær ekki til almennrar notkunar, aðeins til notkunar þar sem „nauðsynlegt er að sjáist í fólk“ og þegar öryggissjónarmið ráða för.

„Fatnaður sem hylur andlit verður framvegis ekki heimilaður í skóla- og heilbrigðisstofnunum, opinberum byggingum og almenningssamgöngum,“ sagði í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.

Forsætisáðherrann Mark Rutte sagði í samtali við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfundinn að bannið byggði ekki á trúarlegum sjónarmiðum.

Í tilkynningunni sagði að stjórnvöld hefðu leitast við að finna jafnvægi milli frelsis manna til að klæðast því sem þeir vilja og mikilvægi gagnkvæmra og „auðþekkjanlegra“ samskipta.

Eldra frumvarp, sem bannaði alla notkun búrkunnar og naut stuðnings popúlistans Geert Wilders, verður dregið til baka.

Samkvæmt ríkisfjölmiðlinum NOS klæðast 100-500 hollenskar konur búrku, flestar aðeins endrum og eins. Þær sem kjósa að sniðganga bannið munu eiga yfir höfði sér sekt að jafnvirði 450 dollara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert