Lögleiða Írar hjónabönd samkynhneigðra?

Helstu stjórn­mála­flokk­ar lands­ins eru sam­einaðir í af­stöðu sinni og hvetja …
Helstu stjórn­mála­flokk­ar lands­ins eru sam­einaðir í af­stöðu sinni og hvetja fólk til að kjósa já. AFP

Þjóðaratkvæðagreiðsla um hjónabönd samkynhneigðra fer fram í Írlandi í dag. Ef niðurstaðan verður já­kvæð verður það í fyrsta skipti í heim­in­um sem kjós­end­ur staðfesta lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra með þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Þessi byrði sem hefur verið á samkynhneigðum pörum um að lifa í felum getur verið fjarlægð í dag ef við kjósum 'Já',“ sagði Enda Kenny, forsætisráðherra landsins áður en atkvæðagreiðslan hófst. „Fólk í Írlandi getur gert það að verkum að allir í samfélaginu verða jafnir til að gifta sig.“

2.000 samkynhneigðir í sambúð

Sam­kyn­hneigð var enn ólög­leg í Írlandi fyr­ir 22 árum síðan, en frá ár­inu 2010 hafa yfir tvö þúsund sam­kyn­hneigð pör skráð sig í sam­búð. Írland er eini staður­inn á Bret­lands­eyj­um þar sem hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra eru enn ólög­leg. Ef niðurstaðan verður jákvæð verður það í fyrsta skipti sem hjónabönd yrðu endurskilgreind í írskri stjórnarskrá.

Írland yrði nítjánda landið í heiminum til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra og það fjórtánda í Evrópu. Þjóðaratkvæðagreiðslur í Króatíu og Slóveníu staðfestu báðar að hjónabönd samkynhneigðra skyldu vera ólögleg, en þingið í Slóveníu sneri því þó við í mars sl.

Skiptar skoðanir ríkis og kirkju

Helstu stjórn­mála­flokk­ar lands­ins eru sam­einaðir í af­stöðu sinni og hvetja fólk til að kjósa „Já“ sem ber merki um mikla þjóðfé­lags­breyt­ingu í land­inu. Kaþólska kirkjan hefur þó barist hart gegn því að hjónabönd verði endurskilgreind.

„Ég held að marg­ir trúi því enn að hjóna­band sé á milli karls og konu sem geta átt börn og kannski mun­um við eiga í erfiðleik­um því við mun­um þá nota hug­takið hjóna­band yfir eitt­hvað sem við trú­um að það sé ekki,“ sagði Eamon Mart­in, erki­bisk­up og yf­ir­maður kaþólsku kirkj­unn­ar í Írlandi.

Stærstur hluti írsku þjóðarinnar skilgreinir sig sem kaþólskan, en ítök kirkjunnar hafa þó veikst mikið í kjöl­far þess að mál tengd kyn­ferðisaf­brot­um gegn börn­um inn­an kirkj­unn­ar hafa komið upp á yf­ir­borðið. Sér­stak­lega eft­ir að yf­ir­menn kirkj­unn­ar reyndu að hylma yfir sum brot.

Gæti orðið mjótt á mununum

Ef samþykkt verður að leyfa hjóna­bönd sam­kyn­hneigðra verður sett ákvæði í stjórn­ar­skrá Írlands þess efn­is að hjóna­band væri sam­kvæmt lög­um á milli tveggja ein­stak­linga án til­lits til kyns þeirra.

Skoðanakann­an­ir benda til þess að stjórn­ar­skrár­breyt­ing­in verði samþykkt en áður hafði staðfest sam­búð sam­kyn­hneigðra verið samþykkt árið 2010. Hins veg­ar hafa kann­an­ir einnig bent til þess að marg­ir sem segj­ast hlynnt­ir breyt­ing­unni hafi fyr­ir­vara á þeirri af­stöðu sinni. Fyr­ir vikið gæti því orðið mjótt á mun­un­um.

Fjölmargir frægir Írar hafa lýst yfir stuðningi sínum, þar á meðal leikarinn Colin Farrell og söngvarinn Bono. Kjörstaðir loka klukkan 10 í kvöld, en búist er við niðurstöðu kosninganna annað kvöld.

Ást spyr ekki um kyn.
Ást spyr ekki um kyn. AFP
Þeir sem hyggj­ast kjósa nei í kosn­ing­unni segja hjóna­band eiga …
Þeir sem hyggj­ast kjósa nei í kosn­ing­unni segja hjóna­band eiga að vera á milli konu og manns. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert