Matvöruverslunum bannað að henda mat

Matarsóun kostar neytendur háar fjárhæðir á hverju ári.
Matarsóun kostar neytendur háar fjárhæðir á hverju ári. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Franska þingið samþykkti í gær lagafrumvarp sem bannar matvöruverslunum að henda ætum mat. Þess í stað eigi verslunareigendur að sjá til þess að maturinn fari til góðgerðasamtaka eða verði seldur sem dýrafóður.

Lögin skylda allar stærri matvöruverslanir til þess að hefja samstarf við góðgerðasamtök um að koma matvörum þangað sem þeirra er helst þörf.

Er verslunareigendum nú óheimilt að henda mat sem er runninn út á síðasta söludag ef hann er óskemmdur. Varðar það jafnframt við lög ef verslanir skemma ætan mat sem hefur verið fjarlægður úr hillum.

Frönsk stjórnvöld binda vonir sínar við að lögin dragi úr matarsóun í landinu. Er talið að á bilinu 20 til 30 kíló af mat fari árlega á sorphaugana á hvern Frakka. Fara þannig gríðarleg verðmæti til spillis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert