Írar fagna úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu

Fólk fagnaði úrslitunum á götum úti.
Fólk fagnaði úrslitunum á götum úti. AFP

„Með þessu er Írland að tala einni rödd til stuðnings jafnrétti,“ sagði Leo Varadkar, heilbrigðisráðherra Írlands, eftir að úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslu um hjónaband samkynhneigðra lágu fyrir. 62,3% samþykktu tillöguna. Varadkar er fyrsti írski ráðherrann til að koma út úr skápnum. 

Írar hafa kosið að breyta stjórnarskránni til að leyfa fólki af sama kyni að ganga í hjónaband. Samtals kusu 1.201.607 manns með tillögunni en 734.300 voru andvíg henni. Úrslitin eru söguleg því Írland er þar með fyrsta landið sem samþykkir hjónaband fólks af sama kyni í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Kaþólski erkibiskupinn, Diarmuid Martin, sagði þegar úrslitin lágu fyrir að kirkjan ætti mikið verk fyrir höndum. Hann sagði einnig að þetta væri staðfesting á því hver viðhorf yngra fólks væru og kirkjan þyrfti að horfast í augu við raunveruleikann.

„Ég geri mér fulla grein fyrir því hvernig hommum og lesbíum hlýtur að líða í dag, að þetta sé eitthvað sem auðgi líf þeirra. Mér finnst þetta vera þjóðfélagsbylting,“ sagði Martin.

Ekki voru allir ánægðir með þessa niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. John Murry, frá kaþólsku samtökunum Iona Institute sem börðust gegn frumvarpinu, var ekki ánægður. „Þetta eru vonbrigði.“

Frétt BBC um málið. 

Fólk lét ánægu sína með úrslitin í ljós á twitter:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert