Rússar leggja stein í götu Úkraínu

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands.
Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands. AFP

Forsætisráðherra Rússlands, Dmitry Medvedev, segir að Rússland muni beita sér gegn því að Úkraína fái annað lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum standi Úkraína ekki í skilum á greiðslum af lánum sínum til lánardrottna, m.a. á þriggja milljarða dollara láni til Rússlands.

Þetta sagði hann í samtali við ríkissjónvarpið, Rossiya, og sagði hann að ef stjórnvöld í Úkraínu myndu frysta greiðslur af lánum sínum yrði það flokkað sem vanskil af hálfu Rússlands. Það myndi knýja Rússa til þess að beita sér gegn frekari lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Úkraínu.

Orð Medvedev eru einn angi deilunnar um austurhluta Úkraínu þar sem átök ríkja á milli úkraínskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinna sem úkraínsk stjórnvöld saka Rússa um að standa að baki. Deilurnar hafa valdið mörgum ríkisborgurum í Úkraínu miklum erfiðleikum og hafa þær haft mikil áhrif á efnahag bæði Rússlands og Úkraínu.

Eins og bolsévikar neituðu að greiða skuld tsar-ríkisstjórnarinnar

Í síðustu viku samþykkti úkraínska þingið að veita ríkisstjórn landsins heimild til þess að fresta greiðslum til alþjóðlegra lánardrottna landsins ef nauðsynlegt þykir. Ákvörðun þingsins vakti upp reiði meðal ráðamanna í Moskvu en þar á bæ er beðið eftir því að Úkraína greiði til baka þriggja milljarða dala lán fyrir lok þessa árs.

Medvedev sagði ákvörðun úkraínska þingsins um að stíga skref í átt til þess að greiðslur verði frystar „líta út eins og þegar bolsévikar neituðu að greiða skuld tsarist-ríkisstjórnarinnar“.

Hann sagði að yrði sú leið farin yrði það túlkað sem svo að Úkraína stæði ekki í skilum á lánum sínum. „Það hefur áhrif á gang viðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, við ætlum að standa fast á okkar, beita okkur af fullum þunga í þessum viðræðum og vernda hagsmuni Rússlands.“

Rússland lánaði Úkraínu í desember árið 2013, aðeins nokkrum mánuðum áður en fyrrum forseta landsins, Viktor Yanukovych, var steypt af stóli og hann flúði til Rússlands í skjól fyrir mótmælendum og anstæðingum sínum.

Ríkisstjórn Úkraínu, sem nýtur stuðnings Vestrænna ríkja, hefur keppst að því að endurfjármagna alþjóðleg lán landsins og semja við lánardrottna landsins fyrir næsta fund AGS í júní. Stefna stjórnvöld að því að safna 15 milljörðum evra til þess að geta átt þess kost að komast í sérstakt verkefni á vegum AGS. En viðræður hafa gengið erfiðlega og gagnrýndu úkraínsk stjórnvöld lánardrottna fyrir „skort á vilja til þess að komast að samkomulagi“.

Medvedev ítrekaði í viðtalinu að Rússland hyggist ekki endurskipuleggja neitt og að þarlend stjórnvöld hyggist beita sér gegn því að AGS láni Úkraínu á meðan að landið stendur ekki í skilum. „Rússland eitt og sér getur ekki staðið í vegi fyrir lánveitingu... en eðlilega verða þessi mál rædd,“ sagði Medvedev.

Úkraína fékk fimm milljónir banaríkjadala úr neyðarsjóði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í mars og eru úkraínsk stjórnvöld undir pressu frá Vesturlöndum um að endurskipuleggja efnahag landsins eftir áralangt skeið af spillingu og óstjórn í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert