Byggja stærsta hótel heims í Mekka

Á fleiri stöðum en Íslandi er hóteluppbygging í gangi og hefur sádiarabíska ríkisstjórnin ákveðið að byggja stærsta hótel í heimi í Mekka, heilagasta bæ múslíma.

Alls mun hótelið hafa 10 þúsund herbergi og verður með risastóra hvelfingu á toppnum auk fjögurra þyrlupalla fyrir auðuga gesti.

Reiknað er með að kostnaðurinn verði 475.470.000.000 krónur eða rúmir 475 milljarðar.

Stærsta hótel heims í dag er MGM Grand Hotel í Las Vegas og er það með 6.198 herbergi. First World Hotel í Malasíu er í öðru sæti með 6.118 herbergi.

Samkvæmt rekstraraðila hótelsins mun hótelið í Mekka innihalda verslunarmiðstöð, matarmarkað og 70 veitingastaði.

Á ári hverju koma um 20 milljónir ferðamanna til Mekka, sem er heilagasti staður múslíma. Í pílagrímsmánuðinum Hajj einum og sér koma tvær milljónir pílagríma til borgarinnar. Er nýja hótelið aðeins tveimur kílómetrum frá Al-Haram-moskunni þar sem helgidómurinn Kaba er.

Sjá frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert