Hrakspár ekki gengið eftir

Breska hugveitan Institute of Economic Affairs hefur gefið út skýrslu um áhrif frjálsari áfengisreglna í landinu. Tíu ár eru síðan lögunum í Bretlandi var breytt þannig að barir, skemmtistaðir og pöbbar mega hafa opið allan sólarhringinn.

Í skýrslunni segir að margir hafi á þeim tíma varað við áhrifum breytinganna talið að neysla myndi aukast gríðarlega. Lögunum var breytt í forsætisráðherratíð Tony Blairs en mikil andstaða var á þinginu. Töldu stuðningsmenn frumvarpsins að reglubreytingin myndi koma í veg fyrir vandræðin sem skapast þegar allir yfirgefa skemmtistaði samtímis klukkan 3 eins og áður var. Sögðust fulltrúar Verkamannaflokksins að markmiðið væri að skapa „evrópskari“ drykkjarmenningu.

Á daginn kom hins vegar að neysla áfengis í landinu náði hámarki árið 2004 og hefur síðan dregist saman um 17 prósent. Er það mesti samdráttur í áfengisneyslu í landinu frá fjórða áratug síðustu aldar, en þá var það kreppan mikla sem leiddi til samdráttarins.

Þá sýnir skýrslan líka að lotubundin neysla (e. binge drinking) hefur dregist saman í öllum aldurshópum, og sérstaklega í hópnum 16-24 ára.

Skýrsluhöfundar telja einnig að rekja megi samdrátt í ofbeldisglæpum til nýju reglnanna. Fram til ársins 2005 máttu barir aðeins hafa opið til klukkan 3 um nótt. Við lagabreytinguna jókst tíðni ofbeldisglæpa á tímabilinu frá klukkan 3-6 um morgun, en samdrátturinn í ofbeldisglæpum frá miðnættis til klukkan 3 var mun stærri. Frá árinu 2004 til dagsins í dag hefur heimilisofbeldi dregist saman um 28% og morðtíðni um 40%.

Á móti kemur að áfengistengdum innlögnum á spítala hefur haldið áfram að fjölga, þó hægar en fyrir árið 2005. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert