Drap kanínu í beinni með reiðhjólapumpu

Asger Juhl og kanínan Allan.
Asger Juhl og kanínan Allan. Skjáskot af BT

„Við drápum hann til að fá viðbrögð og umræður um dýravelferð,“ segir danski útvarpsmaðurinn Asger Juhl sem drap kanínu í beinni útsendingu með reiðhjólapumpu.

Juhl starfar á útvarpsstöðinni Radio24syv. Atvikið átti sér stað að morgni annars í hvítasunnu í þættinum Morgen! Þáttastjórnendurnir tveir, Kristoffer Eriksen og Asger Juhl, aflífuðu kanínuna Allan í hljóðverinu til að vekja athygli á „hræsni“ Dana er kemur að dýravelferð. Segja þulirnir að flestir borði kjöt en vilji ekkert af drápinu sem kjötneyslu fylgir vita. Útvarpsmennirnir tóku fram að þeir ætluðu að snæða kanínuna í gærkvöldi. „Við borðum kjöt á hverju kvöldi heima hjá mér, dýr drepst svo að við verðum mett,“ sagði Juhl.

Og vissulega skapaðist umræða um dýravelferð við þennan gjörning útvarpsmannanna. Á samfélagsmiðlum eru þeir harðlega gagnrýndir fyrir uppátækið. 

Eriksen og Juhl hafa m.a. sagt að þeir hafi hringt í dýrahirði í dýragarðinum í Álaborg og fengið ráðleggingar. Þeir segja hann drepa margar kanínur í viku hverri en þær eru notaðar í fóður handa öðrum dýrum garðsins. „Hann sagði okkur hvernig ætti að gera þetta.“

Kanínan Allan fékk banahöggið með reiðhjólapumpu úr járni. Uppnám varð í hljóðverinu í kjölfarið. Linse Kessler, sem var gestur í þættinum og þangað komin til að ræða dýravelferð, kom inn í hljóðverið til að reyna að bjarga kanínunni. Þá flúði Juhl og hljóp hringinn í kringum borðið með Allan í höndunum.

Hér að neðan má heyra brot úr þættinum þegar kanínan er drepin.

Var det synd, at vi slog kaninen Allan ihjel for at få kød på middagsbordet?Vi tog debatten om danskernes hykleriske...

Posted by Radio24syv on Monday, May 25, 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert