Engill flóttamanna vopnaður síma

Nawal Soufi er alltaf með farsímann á sér og þúsundir sýrlenskra flóttamanna hafa ástæðu til að vera þakklátir fyrir það.

Það var snemma morguns sumarið 2013 þegar hinn 27 ára gamli Sikileyingur tók við fyrsta örvæntingarfulla símtalinu: Hundruð Sýrlendinga voru villt á lekum báti í Miðjarðarhafinu. Soufi hringdi á ítölsku strandgæsluna og fékk leiðbeiningar um hvernig flóttafólkið ætti að finna út staðsetningu sína með gervitunglasíma sem það hafði um borð. Í kjölfarið yrði þeim bjargað. 

Mörgum klukkustundum síðar gat Soufi andað léttar, öllum hafði verið bjargað.

Síðan þá hefur Soufi margoft tekið við sambærilegum símtölum. Hún hefur orðið nokkurs konar tákn vonar í augum margra flóttamanna sem hætta lífi sínu á flótta til Evrópu.

„Símtal getur komið hvenær sem er. Flóttafólk á sjó hrópar: „Það eru 500 manns um borð, við höfum verið á sjó í tíu daga og erum búnir með vatnið“,“ útskýrir Soufi sem nú hefur gefið út bók sem heitir: Nawal, engill flóttamannanna.

Nýlega tók það hana fimm klukkustundir að róa þann sem hringdi nægilega mikið til að fá upplýsingar um það sem skiptir mestu máli: Staðsetningu bátsins. Um borð voru 345, þar af þriðjungur börn. Sem betur fer tókst að bjarga þeim öllum.

 „Ítalska kerfið er þekkt fyrir að vera götótt en þegar kemur að björgunaraðgerðum er þetta eitt það besta í Evrópu,“ segir hún stolt. Soufi er af marokkóskum ættum og talar arabísku. Hún var aðeins þriggja vikna er hún flutti ásamt fjölskyldu sinni til Ítalíu. En hvernig varð hún hlekkur í björgunarteymi Ítala? Allt hófst það árið 2011 er uppreisnin í Sýrlandi byrjaði. Tveimur árum síðar var hún orðin hluti af hópi fólk sem fylgdi sjúkrabíl fullum af lyfjum til borgarinnar Aleppo. Á leiðinni lét hún alla sem hún hitti fá símanúmerið sitt.

Númerið hefur síðan þá gengið á milli flóttafólks. Og þó að Soufi hafi ítrekað birt númer ítölsku strandgæslunnar á Facebook-síðu sinni hringir hennar eigin sími stöðugt. Á Facebook-síðunni birtir hún reglulega símtöl sín við flóttafólk í vanda og skrifar um sína sýn á stríðið í Sýrlandi. 

„Í hvert skipti upplifi ég tómleika, tómleika án tilgangs,“ segir hún. „Hvernig getum við árið 2015 enn fundist lausnin fyrir þetta fólk vera að ferðast yfir hafið á þessum bátum?“

Símtölin sem hún fær eru margskonar. Þegar einu stórslysinu er afstýrt hefst önnur atburðarlás þar sem líf eru í húfi. Þannig hefur það verið og því er enginn tími til að syrgja þá sem látast á leiðinni yfir hafið. Gamli síminn, sem hún notar enn þar sem rafhlaðan dugar ágætlega, er aldrei langt undan. Stundum eru það ættingjar fólks sem hefur flúið sem hringja og biðja um aðstoð við að finna ástvini sína. 

Hún hefur reynt að taka sér frí og láta vini eða fjölskyldu hafa símann og standa vaktina. En Soufi virðist sú eina sem getur sinnt þessari einstöku og persónulegu aðstoð. Síminn er alltaf kominn aftur í hennar hendur innan sólarhrings.

„Það er aðeins hægt að þola þetta ef þú lítur á þetta sem köllun. Þetta er þung byrði en heimurinn er svo grimmur staður,“ segir Mussie Zerai, prestur sem hefur verið að fá sambærileg símtöl frá Erítreumönnum á flótta frá árinu 2003.

„Sem betur fer er til ungt fólk eins og Nawal. Ég dáist að hugrekki hennar, þetta er ekki auðvelt, sérstaklega ekki fyrir unga manneskju.“

Þegar Soufi er ekki í símanum er hún í skóla þar sem hún leggur stund á stjórnmálafræði og vinnur fyrir sér sem túlkur. Hún aðstoðar einnig flóttamenn sem komnir eru til Sikileyjar. Hún leiðbeinir þeim m.a. um banka- og samgöngukerfi Ítalíu.

Á hverju kvöldi fer hún svo heim til móður sinnar sem er ákaflega stolt af dóttur sinni. Hún ætlast aðeins til eins af henni: Að hún svari sér jafn fljótt og hún svarar flóttafólkinu á Miðjarðarhafinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert