Forsetinn lét reisa gullstyttu af sjálfum sér

AFP

Fáir þjóðarleiðtogar láta sér detta í hug það sem forseti Túrkmenistan hefur gert, en í gær var opinberuð stytta af honum í Ashgabat, höfuðborg landsins. Er styttan 21 metrar á hæð, á sökkli úr marmara á meðan styttan sjálf er úr 24 karata gulli.

Túrkmenistan er einræðisríki þar sem forsetinn, Gurbanguly Berdymukhamedov, hefur ráðið ríkjum frá árinu 2006. Þá tók hann við af Saparmurad Nijazov sem var kjörinn lífstíðarforseti landsins árið 1994. Nijazov lét einnig reisa gullstyttu af sjálfum sér á valdatíma sínum.

Berdymukhamedov hlaut í forsetakosningunum síðast árið 2012 96,7% atkvæða. Hann gengur undir viðurnefninu Arkadag sem þýðist á ensku sem „The Protector,“ eða „Verndarinn“ á íslensku.

Í valdatíð Nijazov voru sett lög sem takmarka tjáningarfrelsi, ferðafrelsi og fjármagnsflutninga. Við það einangraðist landið gífurlega. Einnig breytti hann með lögum nöfnum á mánuðum og dögum í landinu. Heita þeir nú eftir fjölskyldumeðlimum og vinum hans. Í valdatíð Berdymukhamedov hefur aðeins verið slakað á þeim lögum og reglum en landið er enn í dag töluvert einangrað frá umheiminum.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch telja landið á meðal þeirra verstu þegar kemur að vernd mannréttinda.

Sjá frétt Dagbladet.

Forseti Túrkmenistan, Gurbanguly Berdymukhammedov, hér í opinberri heimsókn í Seoul …
Forseti Túrkmenistan, Gurbanguly Berdymukhammedov, hér í opinberri heimsókn í Seoul í Suður-Kóreu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert