Efnahagsmálin skapi repúblikönum tækifæri

Baráttan um Hvíta húsið verður hörð í kosningunum 2016.
Baráttan um Hvíta húsið verður hörð í kosningunum 2016. AFP

Hægagangur í bandarísku efnahagslífi skapar repúblikönum tækifæri í forsetakosningunum haustið 2016, að mati Bradley Alfred Thayer, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem fór yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum á hádegisfundi hjá Amerísk-íslenska viðskiptaráðinu (AMÍS) í dag. Thayer segir Jeb Bush eiga erfitt uppdráttar í kosningabaráttunni.

Kosningarnar fara fram 8. nóvember 2016.

Stefanía Óskarsdóttir var einnig ræðumaður og fór hún yfir meginatriði í bandarískum stjórnmálum og hvernig kosið er í helstu valdastöður. Hún benti á þá þróun að bandarískir kjósendur flytji í hverfi þar sem fólk með sambærilegar lífsskoðanir og það sjálft býr. Við það verði viðkomandi kjördæmi öruggari vígi fyrir annaðhvort demókrata eða repúblikana.

Fram kom í máli Thayer að repúblikanar muni notfæra sér óánægju margra kjósenda með stefnu Baracks Obama forseta í innflytjenda- og heilbrigðismálum. Þá sé framganga Obama í utanríkismálum umdeild.

Rússar hafi gengið á lagið

Sú stefnumörkun Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna 2009 til 2013, að „endurstilla“ [e. reset] utanríkisstefnu Bandaríkjanna gagnvart Rússum hafi reynst illa. Vladímír Pútín Rússlandsforseti og stjórn hans hafi gengið á lagið. Taldi Thayer einsýnt að hvorki Donald Rumsfeld, fyrrverandi varnarmálaráðherra, né Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti, hefðu heimilað slíkar tilslakanir gagnvart Rússum er George W. Bush réð ríkjum í Hvíta húsinu.

Á sama hátt hafi veikari staða Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi skapað Kínverjum svigrúm til þess að ganga harðar fram gagnvart nágrannaríkjum. Er það að mati Thayer einn mesti spennuvaldur í alþjóðamálum um þessar mundir.

Þriðja atriðið sé uppgangur Ríkis íslams, ISIS, og órói í Miðausturlöndum. Fjórða atriðið sé veik ímynd Obama á alþjóðavettvangi.

Áhættusamt að veðja á Hillary

Thayer sagði sjö til átta sambandsríki í Bandaríkjunum mundu skera úr um úrslitin í forsetakosningunum 2016.

Hann sagði spennu milli herbúða Obama og Clinton-hjónanna og að margir demókratar hafi áhyggjur af því að flokkurinn setji öll eggin í eina körfu með því að veðja á Hillary Clinton.

Hillary sé orðin fullorðin og því sé ekki hægt að útiloka heilsubrest. Hann sagði Hillary geta höfðað til allra Bandaríkjamanna ólíkt til dæmis John McCain og Mitt Romney, frambjóðendum repúblikana í forsetakosningunum 2008 og 2012, sem ekki hafi höfðað til hvíts fólks í miðstétt. Thayer sagði fjölmiðla nú fjalla á gagnrýninn hátt um Hillary en að það myndi breytast þegar nær dregur kosningunum. Margir fjölmiðlar myndu verða henni hliðhollir.

Jeb Bush skorti byr í seglin

Thayer ræddi einnig um Jeb Bush og möguleika repúblikanans á að hljóta útnefningu flokksins sem forsetaframbjóðandi.

Sagði Thayer að Bush hefði ekki tekist að auka fylgi sitt í könnunum. Bush kæmi ekki fram sem ástríðufullur stjórnmálamaður andstætt til dæmis flokksbróðir sínum Ted Cruz sem höfðaði til kristinna kjósenda. Það dygði Bush því ekki að geta safnað miklu fé í sjóði. En Thayer segir það kosta orðið 2 milljarða dala, um 272 milljarða króna, að verða forseti í Bandaríkjunum.

Hvert verður varaforsetaefnið sótt? 

Í lok fundarins fékk Thayer tvær fyrirspurnir úr sal.

Önnur varðaði áherslu repúblikana á að tryggja sér stuðning gyðinga og þá hvort sú áhersla myndi hafa áhrif á stuðning gyðinga við demókrata. Taldi Thayer að tengsl demókrata við þennan kjósendahóp yrðu eftir sem áður sterk og vísaði til hefðarinnar.

Þá fékk hann spurningu frá Ólafi Arnarsyni, rithöfundi og ráðgjafa, um það hver hann teldi að yrði varaforsetaefni fyrir Hillary eða Jeb Bush.

Sagðist Thayer telja að varaforsetinn yrði sóttur til þeirra sambandsríkja þar sem úrslitin geta farið á hvorn veg.

Dr. Bradley Alfred Thayer ræddi stöðuna í bandarískum stjórnmálum í …
Dr. Bradley Alfred Thayer ræddi stöðuna í bandarískum stjórnmálum í fyrirlestri á vegum AMÍS á Icelandair Hotel Reykjavik Natura í dag. Ljósmynd/Kristín Hjálmtýsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert