Eiga hundrað afkomendur

Afkomendur Zanger-hjónanna telja nú eitt hundrað. Myndin er úr safni …
Afkomendur Zanger-hjónanna telja nú eitt hundrað. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Rax

Hjón ein í Illinois í Bandaríkjunum eignuðust á dögunum hundraðasta afkomandann. Þau eiga tólf börn, 53 barnabörn, 46 barnabarnabörn og eitt barnabarnabarnabarn. Þau grínast með að þau gætu stofnað sitt eigið þorp með fjölskyldunni.

Leo og Ruth Zanger hafa verið gift í 59 ár og eignuðust tólf börn. Yngsta barnið, hinn 31 árs gamli Joe, var þegar orðinn föður- og móðurbróðir tíu sinnum áður en hann fæddist. Tala afkomenda Zanger-hjónanna náði svo hundraðinu 8. apríl þegar barnabarnabarnið Jaxton Lee kom í heiminn.

„Drottinn góður hefur bara haldið áfram að senda þau. Við gætum stofnað okkar eigin þorp,“ segir Leo.

„Það er alltaf pláss fyrir eitt í viðbót,“ segir kona hans Ruth.

Stærstur hluti fjölskyldunnar býr í nágrenni Quincy í vesturhluta Illinois. Þegar hún kemur saman þarf að leigja sal í safnaðarheimili og ekki dugar minna en tæp 23 kíló af kjöti eða tíu kalkúna til þess að metta mannskapinn.

Frétt AP af barnaláni Zanger-fjölskyldunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert