Fjórburarnir í mikilli hættu

Christoph Buehrer útskýrði ástand barnanna á blaðamannafundi í dag.
Christoph Buehrer útskýrði ástand barnanna á blaðamannafundi í dag. AFP

Fjórburar sem fæddust í Þýskalandi í síðustu viku eru enn í lífshættu en þeir komu í heiminn eftir aðeins 26 vikna meðgöngu. Móðir barnanna er 65 ára og hefur ólétta hennar vakið mikla athygli en einnig gagnrýni.

Tvö barnanna þurfa hjálp við að anda eðlilega og eitt þeirra þurfti að gangast undir þarmaaðgerð. Læknar á Charite sjúkrahúsinu í Berlín greindu frá þessu í dag.

Annegret Raunigk, móðir barnanna, átti þrettán börn fyrir. Hún gekkst undir frjósemisaðgerð í Úkraínu og varð í kjölfarið ólétt af fjórburunum. 

Á blaðamannafundi í dag útskýrði Christoph Buehrer, sem er yfir nýburadeild sjúkrahússins að börnin hefðu fæðst áður en þau náðu að þroskast almennilega í leginu. Hann sagði að börnin væru í mikilli hættu. 

„Þetta eru börn sem geta dáið, sem geta fengið alvarlega sjúkdóma eða alvarleg eftirköst,“ sagði hann og bætti við að það væri ekki endilega vegna þess að börnin eru fjórburar. 

Að sögn Wolfgang Heinrich, yfirfæðingalæknis á sjúkrahúsinu, er Raunigk, elsta móðir heims til þess að eignast fjórbura, að minnsta kosti sem hann best veit. 

Í samtali við fjölmiðla í apríl blés Raunigk á þær gagnrýnisraddir sem sögðu að það væri óábyrgðarfullt af henni að ákveða að ganga með börnin fjögur. Þá sagði hún jafnframt að hún hefði ákveðið að reyna að eignast annað barn eftir að yngsta dóttir hennar, sem var þá níu ára, vildi eignast lítinn bróður eða systur. Raunigk býr í Berlín og kennir þar rússnesku og ensku. Aðeins eru nokkur ár í að hún nái eftirlaunaaldri. 

Fjórburarnir eru þrír strákar og ein stelpa. Þau voru 655 til 960 grömm þegar þau fæddust. 

„Þetta eru mjög viðkvæm börn, en mjög sæt,“ sagði Buehrer á blaðamannafundinum. Raunigk, sem á einnig sjö barnabörn, hefur nú verið útskrifuð af gjörgæslu. Hún hefur það gott og hefur getað mjólkað handa börnunum. 

Fyrri fréttir mbl.is:

Eignaðist fjórbura 65 ára gömul

65 ára á von á fjór­bur­um

Hér má sjá Annegret Raunigk í sjónvarpsþætti þegar hún var …
Hér má sjá Annegret Raunigk í sjónvarpsþætti þegar hún var 55 ára gömul. Þá átti hún þrettán börn. Nú eru þau sautján. AFP
Raunigk kom fram í sjónvarpsþætti í apríl.
Raunigk kom fram í sjónvarpsþætti í apríl. Skjáskot af vef RTL
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert