Gullstytta reist til dýrðar forsetanum

Stytta af forseta Túrkmenistans afhjúpuð í höfuðborginni Ashgabat.
Stytta af forseta Túrkmenistans afhjúpuð í höfuðborginni Ashgabat. AFP

Stjórnvöld í Mið-Asíuríkinu Túrkmenistan hafa afhjúpað stóra gullstyttu af forseta landsins, Gúrbangúlí Berdymúkhamedov. Styttan bendir til þess að ekkert lát sé á leiðtogadýrkuninni sem hefur einkennt forsetatíð hans og forvera hans, Saparmúrat Níjazov, sem nefndur var „Túrkmenbasi“, eða „Faðir allra Túrkmena“.

Nýja styttan er sex metra há, úr bronsi og húðuð með 24 karata gulli. Hún stendur á um fimmtán metra háum marmarastalli í miðborg Ashgabat. Styttan nefnist „Verndarinn“ og sýnir forsetann ríða eftirlætisgæðingnum sínum, Akkan, og halda á dúfu með hægri hendi.

Berdymúkhamedov er fyrrverandi tannlæknir og komst til valda eftir að Túrkmenbasi dó úr hjartaáfalli árið 2006. Áður hafði verið reist stór gullstytta af Túrkmenbasi sem snýst á stalli sínum allan liðlangan daginn þannig að andlit hans horfir alltaf við sólu. Nokkrum árum eftir að Túrkmenbasi dó var styttan flutt úr miðborg Ashgabat í eitt af úthverfum höfuðborgarinnar.

Valdaskeið Túrkmenbasi einkenndist af skefjalausri leiðtogadýrkun, harðstjórn og skringilegum uppátækjum. Nöfnum vikudaga og mánaða var breytt og þeir nefndir eftir leiðtoganum sjálfum, móður hans og ættingjum. Helsta rit forsetans, Rúkhnama (Bók andlegrar göfgi), var gert að skyldunámsefni á öllum skólastigum og börn þurftu að læra hana utanbókar.

Sveik loforð um umbætur

Eftir að Berdymúkhamedov komst til valda hét hann því að koma á lýðræðislegum umbótum. Í stað þess að standa við loforðið hefur forsetinn haldið í strangt eftirlit með borgurunum og bann við stjórnarandstöðuflokkum. Dýrkunin á Túrkmenbasi vék fyrir dýrkun á Berdymúkhamedov sem var endurkjörinn forseti í febrúar 2012 með 97,14% atkvæða.

Litið er á hvers konar gagnrýni á stjórnvöldin sem tilraun til að grafa undan ríkinu – glæp sem varðar 25 ára fangelsi. Andstæðingar stjórnarinnar eru vændir um föðurlandssvik og hafa annaðhvort verið dæmdir í fangelsi eða reknir í útlegð.

Túrkmenistan hefur verið eitt af einangruðustu ríkjum heims frá því að það var stofnað eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991. Ríkisvaldið stjórnar öllum fjölmiðlum landsins og almenningur hefur ekki aðgang að erlendum fjölmiðlum. Yfirvöldin hafa einnig strangt eftirlit með netnotkun landsmanna.

Reist „vegna fjölda áskorana“

Nýja styttan var afhjúpuð á mánudag, á hátíðisdegi sem tileinkaður er höfuðborg landsins. Forseti þingsins, Akdja Nurberdieva, sagði að ákveðið hefði verið að reisa styttuna „vegna fjölda áskorana frá venjulegu fólki, samvinnufélögum og opinberum stofnunum“ til að þakka forsetanum „fyrir þjónustu hans við föðurlandið“.

„Við ættum öll að þakka almættinu fyrir þá staðreynd að landið okkar er undir stjórn viturs stjórnskörungs, Verndarans,“ sagði Núralí Gurbanov, 75 ára eftirlaunaþegi, við fréttamann AFP þegar styttan var afhjúpuð.

„Minnismerkið um Verndarann-hetjuna varðveitir að eilífu minninguna um blómaskeið túrkmenska ríksins,“ sagði Annadurdí Almamedov, prófessor við Listaakademíu Túrkmenistans. „Við erum núna vitni að þessu dýrðlega skeiði í sögunni.“ bogi@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert