Missti afl á báðum hreyflum

Vél frá Singapore Airlines.
Vél frá Singapore Airlines.

Farþegavél Singapore Airlines (SIA) missti tímabundið afl á báðum hreyflum á leið sinni til Shanghaí. Vélin er af gerðinni Airbus A330-300 og um borð voru 194. Við bilunina lækkaði vélin flugið niður í 13 þúsund fet áður en tókst að koma hreyflunum í gang.

Atvikið átti sér stað þann 23. maí og var það rannsakað af flugfélaginu ásamt Airbus og Rools-Royce sem framleiðir hreyflana.

„Við getum ekki gefið frekari upplýsingar en við getum staðfest að sama vélin var notuð til að fljúga til baka [frá Shanghaí],“ segir talsmaður flugfélagsins við AFP-fréttastofunar. 

SIA segir að vélin hafi lent í slæmu veðri í 39 þúsund feta hæð, um þremur og hálfri klukkustund eftir flugtak frá Singapúr.

„Báðir hreyflarnir misstu tímabundið afl og flugmennirnir fóru eftir viðbragðsáætlun til að ná aftur eðlilegri starfsemi hreyflanna,“ segir talsmaður flugfélgasins. Hann segir að hreyflarnir hafi verið prófaðir í Shanghaí og að ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert