Tony Blair lætur af störfum

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, hefur látið af störfum sem sérlegur erindreki Bandaríkjanna, Rússlands, Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna í Miðausturlöndum.

Þetta staðfesti talskona hans við fjölmiðla í dag. Blair hefur afhent Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, uppsagnarbréf sitt, en hann hafði gegnt starfinu í átta ár.

Heimildir AFP herma að Blair muni stíga til hliðar í næsta mánuði.

Hann mun þó áfram starfa með stjórnvöldum í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu í málum sem tengjast Miðausturlöndum. Blair hefur lagt áherslu á svokallaða tveggja ríkja lausn í deilu Ísraels og Palestínu.

Fjömiðlar greindu frá því í mars síðastliðnum að Blair væri valtur í sessi þar sem hann hefði ekki nægilega góð tengsl við stjórnvöld í Palestínu að mati Bandaríkjastjórnar. Jen Psaki, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði þó að þær getgátur væru ekki á rökum reistar.

Blair var skipaður erindreki árið 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert