Með óráði vegna hitans

Maður reynir að sofa á götunni. Hitinn hefur víða farið …
Maður reynir að sofa á götunni. Hitinn hefur víða farið nálægt 50°C. AFP

Sjúkrahús á Indlandi eru yfirfull vegna hitabylgjunnar sem þar geisar og hefur kostað um 1.500 manns lífið á einni viku.

Fleiri hundruð manns, aðallega frá fátækustu svæðum landsins, deyja á hverju ári vegna mikilla hita, en í ár er mannfallið óvenju mikið.

Í héraðinu Andhra Pradesh í suðurhluta landsins, þar sem hitinn hefur orðið hvað mestur, hafa 1.020 manns dáið vegna veðursins frá 18. maí, eða um helmingi fleiri en allt síðasta ár.

Í nágrannahéraðinu Telangana, þar sem hitinn hefur farið upp í 48°C, hafa 340 manns dáið vegna hitans. Þar lést 31 maður úr hitanum allt síðasta ár.

Hitabylgjan hefur staðið skemur í ár en undanfarin ár en þó er mannfallið mun meira, segir Arjuna Srinidhi, verkefnastjóri hjá Vísinda- og umhverfisstofnuninni, CSE. „Þetta gæti verið vegna þess að hitinn hækkaði mjög hratt eftir mjög blautan febrúar og mars þegar veðrið var svalt.“

Í Nýju Delí hefur hitinn farið upp í 45°C. Sjúkrahúsin eru yfirfull af fólki sem hefur veikst vegna hitans. „Fólk kvartar undan miklum höfuðverkjum og svima,“ segir læknir. „Þeir eru einnig sumir með óráði,“ segir hann sem er dæmigert einkenni ofþornunar.

Rafmagnslaust hefur orðið í Delí þar sem loftkælingarkerfi eru orkufrek. Það hefur enn aukið á vanlíðan íbúa höfuðborgarinnar vegna hitans.

 Langar biðraðir sjúklinga hafa myndast fyrir utan eitt stærsta ríkisrekna sjúkrahús Nýju Delí. Fólkið heldur á vatnsflöskum í röðunum og fær sér mangó til að kæla sig. Sumir reyna að sefa grátandi börn sín og vefja höfuð þeirra inn í vasaklúta til að hlífa þeim við steikjandi sólinni.

„Í nótt var rafmagnslaust í næstum fimm klukkustundir,“ segir Seema Sharma sem beið fyrir utan sjúkrahúsið með fjögurra gamlan son sinn. „Hann getur ekki sofið og grætur bara. Núna er hann kominn með hita.“

Margir sofa á götum Delí og hafa því litla vörn gegn hitanum. Yfirvöld hafa óskað eftir því að loftkælingar verði settar upp í athvörfum heimilislausra. Oft eru athvörfin ekkert annað en gluggalausir bárujárnskofar. Þar er oft aðeins að finna eina litla viftu og því getur hitinn innandyra orðið meiri en fyrir utan. „Þegar hitinn er mikill þá getur orðið erfitt að sofa inni í kofunum,“ segir verkamaður í samtali við Hindustan Times. „Þá er betri kostur að sofa á götunni.“

Ekki er útlit fyrir að veðrið verði bærilegra á næstu dögum. Hitinn hefur í raun versnað þar sem heitir og þurrir vindar blása.  „Við höldum að hitabylgjan verði áfram í fjóra til fimm daga í viðbót,“ segir yfirmaður indversku veðurstofunnar.

Hitinn á Indlandi er víða óbærilegur.
Hitinn á Indlandi er víða óbærilegur. AFP
Heimilislausir sofa undir brú í Nýju Delí. Stundum er bærilegra …
Heimilislausir sofa undir brú í Nýju Delí. Stundum er bærilegra að sofa úti í skugga en inni í gluggalausum bárujárnskofum. AFP
Ís fluttur um Nýju Delí.
Ís fluttur um Nýju Delí. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert