Vegfarendur lyftu strætisvagni

Skjáskot

Reiðhjólamaður lenti í árekstri við strætisvagn í Walthamstow í austurhluta London, höfuðborgar Bretlands, seinni partinn í gær með þeim afleiðingum að hann festist undir vagninum. Stór hópur vegfarenda gripu til sinna ráða til þess að ná manninum úr prísundinni og lyftu strætisvagninum með sameiginlegu átaki.

Fram kemur á fréttavef sjónvarpsstöðvarinnar Sky að hjólreiðamaðurinn, sem hafði notast við reiðhjól með einu hjóli, hafi verið fluttur á sjúkrahús í kjölfarið eftir að lögregla og sjúkraflutningamenn höfðu komið á staðinn. Hann sé alvarlega slasaður. Myndband var tekið af atburðinum sem farið hefur víða um netið. Fram kemur í fréttinni að um 50-100 manns hafi tekið þátt í að bjarga manninum undan strætisvagninum.

„Þeim tókst einhvern veginn að færa strætisvagninn aðeins til. Þetta var ótrúlegt - þetta var þungur vagn á tveimur hæðum. Lögreglan kom síðan fljótt á staðinn og tók við málinu,“ er haft eftir einum vegfaranda sem varð vitni að björguninni. Annar segir að enginn sem tók þátt í henni hafi hikað við að leggja sitt lóð á vogarskálina. „Það var virkilega ánægjulegt að verða vitni að þessu þegar eitthvað svona hræðilegt hafði gerst.“

Myndbönd af atburðinum má sjá hér að neðan:

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/CWtb3rWZt5g" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div> <iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/BGx1QTYMI50" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert