Braut gegn 26 stúlkum

mbl.is/Ásdís

Dómstóll í Kína hefur dæmt grunnskólakennarann Li Jishun til dauða eftir að hann var fundinn sekur um að hafa nauðgað eða brotið kynferðislega á 26 stúlkum.

Fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins að maðurinn hafi nú þegar verið tekinn af lífi.

Jishun framdi brotin á árunum 2011 og 2012, en þá starfaði hann í grunnskóla í héraðinu Gansu. 

Hann braut gegn stúlkum á aldrinum 4 til 11 ára, stúlkum sem voru „ungar og feimnar“, að því er sagði í dóminum. Þar kom jafnframt fram að yfir sjö þúsund mál af þessu tagi, þar sem brotið er kynferðislega gegn börnum, hefðu komið upp á undanförnum árum. Fjölgunin hefði verið nokkuð ör.

Li nauðgaði 21 stúlku og braut kynferðislega á fimm í skólastofum, á heimavist sem og í skógi í grennd við skólann. Hann braut oftar en einu sinni á nokkrum stúlkum, en ekki kemur fram í dómnum hvernig upp komst um málið.

Telur dómstóllinn að Li sé „alvarleg ógnun við samfélagið“ og bendir meðal annars á að brotin hafi verið framin á aðeins einu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert