Merkel jákvæð en Pólverjar segja nei

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að Þjóðverjar myndu hafa „uppbyggilegt“ hlutverk í viðræðum Breta við Evrópusambandið þegar hún hitti David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í gær. Hún sagði að þar sem vilji væri fyrir hendi væri hægt að koma ýmsu til leiðar.

Cameron lauk þar með tveggja daga ferð sinni til meginlands Evrópu, þar sem hann hitti fyrir leiðtoga Frakklands, Hollands, Póllands og Þýskalands og ræddi við þá möguleikann á því að semja um breytingar á stofnsáttmálum Evrópusambandsins áður en Bretar kjósa um veru sína í sambandinu.

Viðbrögð Merkels þóttu heldur blíðari en þau sem Cameron fékk í Póllandi. Ewa Kopacz, forsætisráðherra Póllands, sagði við Cameron að þær breytingar sem Bretar vildu gera mættu ekki koma niður á pólskum frandverkamönnum og frjálsri för þeirra innan Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert