14 ára piltur pyntaður hrottalega

Liðsmenn Ríkis íslams beita hrottalegu ofbeldi og skiptir engu á …
Liðsmenn Ríkis íslams beita hrottalegu ofbeldi og skiptir engu á hvaða aldri fórnarlambið er AFP

Fjórtán ára gamall sýrlenskur piltur var pyntaður hrottalega af liðsmönnum Ríkis íslams og var ofbeldið tekið upp á síma af einum þeirra.

Samkvæmt BBC sést drengurinn barinn til óbóta þar sem hann hefur verið hengdur upp á úlnliðunum. Annar unglingur sem BBC ræddi við segist hafa barist fyrir al-Nusra Front hryðjuverkasamtökin þegar hann var fimmtán ára gamall. Hann hafi jafnvel framið morð fyrir samtökin.  

Á símamyndskeiðinu sést þar sem Ahmed hangir með bundið fyrir augun og tveir grímuklæddir menn standa fyrir framan hann. Annar er með hníf og skammbyssu hinn er emð AK-47 riffil. Síðan hefjast barsmíðarnar.

Ahmed tókst að flýja kvalara sína og er í Tyrklandi þar sem BBC ræddi við hann. Ahmed segist hafa hugað um foreldra sína á meðan pyntingunum stóð.

„Ég hélt að ég myndi deyja frá foreldrum mínum, systkinum, vinum mínum og ættingjum. Ég hélt að ég myndi deyja.“

„Þeir hýddu mig, gáfu mér raflost svo ég myndi játa. Ég sagði þeim allt.“

Ahmed seldi brauð í sýrlensku borginni Raqqa til þess að framfleyta sér. Tveir menn sem hann þekkti báðu hann um að koma poka fyrir skammt frá fundarstað Ríkis íslams. En Ahmed vissi ekki að það væri sprengja í pokanum. Ofbeldið gagnvart honum varði í tvo sólarhringa.

„Þegar þeir gáfu mér raflost þá æpti ég á móður mína,“ segir Ahmed í viðtali við BBC. En hann segir að það hafi aðeins þýtt að rafstraumurinn var aukinn.

Að sögn Ahmed þykjast þeir verða trúaðir en eru heiðnir. Þeir hafi reykt og þóst fara að reglum íslam en ekki gert það.

Ahmed var dæmdur til dauða en böðull hans fann til með honum og leyfði honum að flýja. Hann segist varla festa svefn. „Þegar ég kom fyrst til Tyrklands fékk ég stöðugar martraðir. Ég fékk einhverja aðstoð en ég gat ekki sofið þar sem mig dreymdi þetta stöðugt. Alltaf þegar ég lokaði augunum fékk ég martraðir og vakti síðan allan nóttina,“segir hann í viðtalinu.

Sá sem tók upp myndskeiðið hefur yfirgefið Ríki íslams og er fullur eftirsjár. Hann segir að myndskeiðið hafi verið tekið í áróðursskyni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert