Lét sig hverfa eftir rifrildi um húsverk

Lögregla leitar nú stúlkunnar. Mynd úr safni.
Lögregla leitar nú stúlkunnar. Mynd úr safni. AFP

Lögregla leitar nú þrettán ára stúlku sem hvarf frá heimili sínu í Nottinghamshire í Bretlandi á laugardaginn. Að sögn foreldra stúlkunnar, lét stúlkan sig hverfa eftir „minniháttar rifrildi“ um húsverk.

Foreldrar stúlkunnar komu fram á blaðamannafundi fyrr í dag þar sem þeir báðu dóttur sína, Amber Peat, um að koma heim. Samkvæmt frétt Sky News var fjölskyldan nýkomin heim úr fríi í Cornwall, þegar stúlkan hvarf, sem var að sögn foreldranna „frábært“.

„Við vorum í stofunni, og ég heyrði útidyrahurðinni skellt, og þá áttaði ég mig á því að ég sá hana hvergi, hún var bara horfin,“ sagði móðir stúlkunnar, Kelly Peat, á blaðamannafundinum í dag. 

„Ef þú ert að horfa á þetta, eða ef einhver veit hvar hún er, sendið hana heim, gerið þið það,“ bætti hún við. 

Stjúpfaðir stúlkunnar sagði á blaðamannafundinum að stúlkan nyti þess að lesa hafi ekki verið líkleg til þess að láta sig hverfa. 

Lögreglumaðurinn Matt McFarlane er yfir rannsókninni á hvarfi stúlkunnar. Hann hefur staðfest að lögregla skoði nú þann möguleika að Amber sé að reyna að heimsækja líffræðilegan föður sinn, sem býr í Skotlandi.

Hún sást síðast í Mansfield hverfinu um klukkan 17:30 á laugardaginn og eru foreldrar stúlkunnar og yfirvöld áhyggjufull. Í gærkvöldi gengu íbúar Mansfield á milli húsa til þess að leita að stúlkunni. Jafnframt var leitað af henni í skóglendi. Lögregla telur möguleika á því að Amber sé enn nálægt heimili sínu en hún var hvorki með farsíma né pening á sér þegar hún hvarf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert