Svívirti starfsmann skemmtigarðs

Fyrrum Spánarkonungur, Juan Carlos. Barnabarn hans kom sér í vandræði …
Fyrrum Spánarkonungur, Juan Carlos. Barnabarn hans kom sér í vandræði í síðustu viku. AFP

Meðlimur spænsku konungsfjölskyldunnar hefur verið ásakaður um að svívirða starfsmann skemmtigarðs í Madrid, eftir að honum var neitað um að komast fram fyrir í röð.

The Independent segir frá þessu.

Don Froilán er sextán ára gamall og náfrændi Filippusar VI Spánarkonungs. Hann á að hafa misst stjórn á skapi sínu í Parque de Atracciones garðinum í síðustu viku þegar hann reyndi að fara fram fyrir langa röð. Eftir að kennari í hópnum sem beið í röðinni benti Froilán á að fara aftast á Froilán að hafa sagt: „Ég er fjórði í röðinni að spænsku krúnunni.“

Samkvæmt dagblaðinu El Economista, sagði starfsmaður garðsins að Froilán þyrfti að bíða eins og allir aðrir. Þá öskraði Froilán á manninn, sagði honum að þegja og kallaði hann „Chino“ en það orð er notað á Spáni til þess að lýsa fólki sem kemur upphaflega frá Asíu. 

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Froilán hefur komið sér í vandræði. Á síðasta ári var hann rekinn úr skóla fyrir að falla tvisvar á prófum. Árið 2012 náði hann jafnframt að skjóta sjálfan sig í fótinn í veiðiferð. Þá var hann ekki orðinn fjórtán ára gamall, og of ungur til þess að mega nota skotvopn samkvæmt spænskum lögum. 

Vinsældir konungsfjölskyldunnar hafa aukist á Spáni eftir að Filippus tók við krúnunni af föður sínum á síðasta ári. Þrátt fyrir það hafa aðrir meðlimir fjölskyldunnar komið sér í talsverð vandræði upp á síðkastið. Frolán er sonur Elenu, sem er systir Filippusar. Systir Elenu er Cristina en hún hefur verið ákærð fyrir skattsvik tengd viðskiptum eiginmanns hennar, Inaki Urdangarin. Hún er fyrsti meðlimur spænsku konungsfjölskyldunnar til þess að vera ákærð fyrir lögbrot. 

Prinsessan gæti þurft að sitja í fangelsi í ellefu ár, verði hún dæmd sek. 

Faðir Cristinu, Juan Carlos, fyrrum konungur Spánar, hefur einnig verið duglegur að koma sér í vandræði á seinni árum en hann t.d. skellti sér á fíla­veiðar í Botsvana í Afr­íku árið 2012. Á sama tíma var þjóð hans í mikl­um efna­hagserfiðleik­um og vakti því veiðiferðin mikla reiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert