Ástæðulaust að óttast Rússa

Pútín segir NATO-ríkin ala á ótta fólks við Rússa.
Pútín segir NATO-ríkin ala á ótta fólks við Rússa. AFP

„Aðeins óður maður í draumi gæti raunverulega haldið að Rússar ætli skyndilega að ráðast á NATO ríki,“ segir Vladimir Pútín Rússlandsforseti í samtali við ítalska dagblaðið Corriere della Sera í dag. NATO-ríkin hafa undanfarið aukið við hernaðarmátt sinn í austurhluta Evrópu til þess að búa sig undir hugsanlega hernaðarógn frá Rússum. Unnið er að uppsetningu sex herstöðva á svæðinu.

Hörð átök hafa geisað í Austur-Úkraínu síðustu vikuna, þá sérstaklega í bæjunum Maryinka og Krasnohorivka vestur af Donetsk, en NATO (Atlantshafsbandalagið) saka Rússa um að styðja við uppreisnarmenn í landinu. Þessu neitar Pútín þó staðfastlega og segir ríki bandalagsins ala á hræðslu fólks við Rússa til að styrkja hernaðarlega stöðu sína.

„Það er engin ástæða til að óttast Rússland. Við höfum um margt annað að hugsa en hernaðarátök af þessu tagi,“ segir Pútín í viðtalinu.

Poroshenko hefur sent 50 þúsund hermenn á átakasvæðin í Austur-Úkraínu
Poroshenko hefur sent 50 þúsund hermenn á átakasvæðin í Austur-Úkraínu AFP

Petro Poroshenko Úkraínuforseti tilkynnti í gær að Rússar hefðu sent „áður óséðan fjölda“ hermanna á átakasvæðin við landamæri landsins og sendi Úkraínuher því 50 þúsund hermenn á svæðið til að mæta ógninni. Pútín hafnar því hins vegar að rússneskir hermenn komi nálægt átökunum.

Yfir 6.400 manns hafa látist í átökunum í Austur-Úkraínu frá apríl í fyrra.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert