Prinsinn táraðist í kirkjunni

AFP

Svíar og konungsbornir frá öllum heimshornum fögnuðu í dag brúðkaupi Carls Philips Svíaprins og Sofiu Hellqvist sem fram fór í konunglegu kapellunni í Stokkhólmi.

Fólkið fagnaði ákaft fyrir utan höllina þegar að Carl Philip kyssti brúður sína, áður en farið var með hjónin í gegnum miðborgina í hestvagni. Mörg hundruð fylgdust með en í dag er heitt í Stokkhólmi og glampandi sól. 

Í athöfninni sem var send út beint í sjónvarpi mátti sjá prinsinn fella tár er brúður hans gekk niður kirkjugólfið við lagið „Father in Heaven“ með Enyu. Hann táraðist aftur þegar hann lét á hana hringinn sem hann átti reyndar svolítið erfitt með og flissaði parið í kjölfarið. 550 gestir voru við afhöfnina, m.a. Edward Bretaprins, Mathilde Belgíudrottning og Takamado Japansprinsessa.

Sofia, sem nú er orðin prinsessa, klæddist kjól úr þrílituðu silki og blúndu. Kjóllinn var hannaður af sænska fatahönnuðinum Ida Sjostedt.

Hjónin yfirgáfu kirkjuna undir sterkum tónum gospellags og minnti atvikið suma gesti á atriðið úr bresku kvikmyndinni Love Actually.

Gera má ráð fyrir því að fagnað verði í höllinni langt fram á nótt. Í meðfylgjandi myndasafni má sjá konungborna koma til athafnarinnar, myndir úr athöfninni og þegar að fólk mætti til veislunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert