Merkel segir samkomulag mögulegt

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er sannfærð um að samkomulag grískra stjórnvalda við lánardrottna sína, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópska seðlabankann og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sé enn mögulegt.

„Það stendur eftir að tilraunir Þjóðverja miða að því að halda Grikkjum á evrusvæðinu,“ sagði hún á þýska þinginu í morgun.

„Ég er enn sannfærð. Þar sem er vilji, þar er vegur. Ef pólitískir leiðtogar í Grikklandi sýna þennan vilja, þá er samkomulag við þessar þrjár stofnanir enn mögulegt,“ bætti Merkel við.

Fjármálaráðherrar ríkja á evrusvæðinu munu funda í Lúxemborg í dag og ræða málefni Grikklands.

Gríski seðlabankinn varaði við því í gær að Grikkland gæti hrakist úr evrusamstarfinu og jafnvel Evrópusambandinu sjálfu ef samkomulag næst ekki við lánardrottnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert