„Takið fánann niður“

Suðurríkjafáninn við hún í Suður-Karólínu við minnismerki um hermenn sem …
Suðurríkjafáninn við hún í Suður-Karólínu við minnismerki um hermenn sem féllu í borgarastíðinu. AFP

Fyrir sumum er suðurríkjafáninn táknmynd þess haturs sem brotist hefur út í bandarísku samfélagi með reglulegu millibili, nú síðast í Charleston í Suður-Karólínu í vikunni. Það fer því fyrir brjóstið á mörgum að sjá fánann enn við hún við þinghús ríkisins. Nú hefur hópur stigið fram og mótmælt fánanum og krefst þess að notkun hans verði hætt.

„Við finnum fyrir hatrinu, við finnum fyrir hættunni. Fáninn segir þér að þú sért ekki velkominn hingað,“ segir Michaela Pilar Brown í ræðu sem hún hélt á mótmælum í Charleston í dag.

Suðurríkjafáninn var fáni ríkjasambandsins í suðri sem sagði sig úr Bandaríkjunum árið 1861. Margir hafa í gegnum árin barist fyrir því að notkun hans verði hætt, þar sem hann hefur oft verið tengdur við kynþáttahatur. Meira að segja forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum hafa á síðustu dögum verið spurðir út í hvað þeim finnist um fánann, og einhverjir reyna að gera málið að kosningamáli.

„Takið suðurríkjafánann niður af þinghúsinu. Fyrir mörgum er þetta táknmynd kynþáttahaturs. Fjarlægið hann í nafni fórnarlamba Charleston-voðaverkanna,“ skrifar fyrrum forsetaframbjóðandi Repúblikana, Mitt Romney, á Twitter-síðu sína.

Ríkisstjórinn í Suður-Karólínu, Nikki Haley, segir að verið sé að skoða hvort fáninn verði fjarlægður. „Við ætlum okkur að ræða málið og fá öll sjónarmiðin í umræðunni fram,“ segir Haley.

Notkun fánans var hætt í Flórída fyrir nokkrum árum þegar Jeb Bush var ríkisstjóri en nú er hann forsetaframbjóðandi Repúblikana. „Í Flórída tókum við fánann niður af öllum opinberum byggingum. Þetta er mjög eldfimt máli í Suður-Karólínu. Eftir að tímabili sorgarinnar lýkur mun umræðan fara þar fram og ég er viss um að kjörnir fulltrúar þar munu taka rétta ákvörðun,“ segir Bush á Twitter.

Á mótmælum í Charleston í dag kröfðust margir þess að …
Á mótmælum í Charleston í dag kröfðust margir þess að notkun á fánanum yrði hætt við opinberar byggingar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert