Dvínandi vonir um samkomulag

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, og Jean-Claude Juncker, forseti Framkvæmdastjórnar ESB …
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, og Jean-Claude Juncker, forseti Framkvæmdastjórnar ESB í morgun. AFP

Til stendur að neyðarfundur fjármálaráðherra evruríkjanna fari fram í dag um skuldavanda Grikklands. Fundurinn hefur verið kynntur sem úrslitatilraun til þess að ná samkomulagi um áframhaldandi lánveitingar alþjóðlegra lánadrottna landsins, Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Á móti þurfa grísk stjórnvöld að leggja fram áætlanir um aðgerðir til þess að koma lagi á efnahagsmál Grikklands.

Viðræður hafa staðið yfir undanfarna mánuði en litlu skilað til þessa. Hins vegar er útlit fyrir að neyðarfundurinn í dag verði lítið annað en fundur þar sem aðilar málsins bera saman bækur sínar ef lánadrottnarnir fallast ekki á nýjustu tillögur Grikkja um lausn málsins. Vonir hafa dvínað í morgun um að niðurstaða fáist á honum samkvæmt frétt AFP. Haft er eftir Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að árangur hefði náðst undanfarna daga en alls óvíst væri þó hvort samkomulagi verði landað í dag. 

Fréttaveitan hefur hins vegar eftir Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, að grísk stjórnvöld hefðu ekki lagt fram neinar nýjar efnislegar tillögur. Starfsbróðir hans í Frakklandi, Michel Sapin, lofaði hins vegar Grikki í morgun fyrir fagleg vinnubrögð við nýjar tillögur að lausn vandans. Þá hefur AFP eftir fjármálaráðherra Finnlands, Alexander Stubb, að hann hefði litlar væntingar um árangur á fundinum síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert