Hælisleitendum dreift um ESB

Forystumenn Evrópusambandsins ákváðu á fundi sínum í Brussel seint í gærkvöldi að tugir þúsunda hælisleitenda sem hafa komið til Ítalíu og Grikklands verði dreift til annarra ríkja sambandsins. Fréttavefur breska ríkisútvarpsins BBC greinir frá þessu.

Haft er eftir Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, að um væri að ræða í kringum 40 þúsund manns. Fólkinu yrði dreift innan sambandsins á næstu tveimur árum. Hins vegar yrði ekki um að ræða ákveðinn kvóta sem hvert ríki yrði að taka við. Tusk hafði áður kallað eftir því að ríki Evrópusambandsins öxluðu í sameiningu ábyrgð á þeim vanda sem skapast hafi vegna mikils fjölda hælisleitenda sem héldi yfir Miðjarðarhafið til Evrópu.

Fram kemur í frétt BBC að samkvæmt nýjum tölum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna hafi 63 þúsund hælisleitendur komið til Grikklands það sem af er þessu ári og 62 þúsund til Ítalíu. Forystumenn Evrópusambandsins ákváðu einnig að aðgerðin næði til 20 þúsund manns sem væru utan sambandsins í dag. Francois Hollande, forseti Frakklands, sagði við fjölmiðla í dag að hann teldi að flestir þeirra væru frá Sýrlandi eða Írak.

Bretar hafa hins vegar hafnað því að taka þátt í aðgerðunum og ríki Evrópusambandsins í Austur-Evrópu hafa lagst gegn sérstökum kvótum fyrir hvert ríki sambandsins. Fyrir vikið er ljóst að ríkin munu hafa sjálfdæmi um það hvort og að hversu miklu leyti þau taka þátt.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB:
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB: AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert