Hjónabönd samkynhneigðra lögleg í Bandaríkjunum

Dómsins var beðið með eftirvæntingu.
Dómsins var beðið með eftirvæntingu. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna sló því í dag föstu að hjónaband sé stjórnarskrárvarinn réttur allra og eru því hjónabönd samkynhneigðra loks lögleg í öllum ríkjum landsins.

Dómararnir voru ekki sammála í málinu en dómurinn skiptist 5-4. 

Áður en dómurinn féll höfðu 37 ríki þegar lögleitt hjónabönd samkynhneigðra. 

„Dómstóllinn slær því föstu að samkynhneigð pör eiga sama rétt og aðrir til þess að gifta sig. Ekki má neita þeim um þetta frelsi lengur,“ skrifaði dómarinn Anthony Kennedy í meirihlutaákvæði sínu. 

11 ár eru síðan hjónabönd samkynhneigðra voru fyrst lögleidd í Massachusetts. Í kjölfarið hafa ríkin fylgt eitt af öðru fyrir utan 13 ríki. 

Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi í fjórum málum í einu þegar hann komst að ofangreindri niðurstöðu, frá Michigan, Ohio, Kentucky og Tennessee. Í öllum þessum ríkjum hafði hæstiréttur ríkjanna komist að þeirri niðurstöðu að löglegt væri að banna slík hjónabönd.

Í frétt Washington Post kemur fram að skoðun almennings á hjónaböndum samkynhneigðra hafi breyst mikið á undanförnum árum, í takt við lögleiðinguna sem hefur átt sér stað. Segjast 61% Bandaríkjamanna nú styðja slík hjónabönd og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert