„Hjónaband skilgreint af guði“

Bobby Jindal, ríkisstjóri í Louisiana, tilkynnti nýlega um forsetaframboð sitt.
Bobby Jindal, ríkisstjóri í Louisiana, tilkynnti nýlega um forsetaframboð sitt. AFP

Ríkisstjórar Texas og Louisiana hafa lýst því yfir að opinberir starfsmenn í ríkjunum þurfi ekki að framkvæmda samkynja hjónavígslur stríði það gegn þeirra trúarskoðunum. Yfirlýsingarnar koma í kjölfar dóms Hæstaréttar Bandaríkjanna frá því í fyrradag þar sem fram kemur að hjóna­band sé stjórn­ar­skrár­var­inn rétt­ur allra og eru því samkynja hjónabönd loks lög­leg í öll­um ríkj­um lands­ins.

Frétt mbl.is: Hjónabönd samkynhneigðra lögleg í Bandaríkjunum

Greg Abbott er ríkisstjóri í Texas.
Greg Abbott er ríkisstjóri í Texas. Ljósmynd/Wikipedia

Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, sendi ríkisstofnunum minnisblað í kjölfar niðurstöðunnar þar sem m.a. kemur fram að enginn verði þvingaður til að haga gjörðum sínum í andstöðu við eigin trú. Ken Paxton, yfirmaður dómsmála í ríkinu hvatti sýslumenn til að gefa ekki út giftingarleyfi án síns samþykkis. Nokkrir hafa fylgt fyrirmælum hans, en sýslumaðurinn í Dallas lét hins vegar hafa eftir sér að „slíkar yfirlýsingar trompuðu ekki æðsta rétt landsins“.

Ríkisstjórinn birti einnig færslu á Twitter síðu sinni þar sem hann segir hjónaband þegar hafa verið skilgreint af guði, og það sé ekki í höndum mannfólks að breyta því.

Paxton hefur einnig rætt hugmyndir um sambærileg lög og voru sett í Norður-Karólínu á dögunum, en þau veita opinberum starfsmönnum heimild til að neita að framkvæma samkynja hjónavígslur vegna eigin trúarskoðana. 

„Við munum standa vörð um trúfrelsi okkar íbúa og vernda trúað fólk fyrir lögsóknum og áreiti,“ sagði Paxton í yfirlýsingu.

Bobby Jindal, ríkisstjóri í Louisiana og forsetaframbjóðandi repúblikana, viðraði svipaðar skoðanir í yfirlýsingu. „Niðurstaða réttarins mun ryðja brautina fyrir árásir og ofsóknir gegn trúfrelsi kristinna manna sem ekki eru á sömu skoðun.“

Jindall birti sambærilega færslu á Twitter og kollegi hans Abbott, þar sem hann segir að hjónaband hafi verið „skapað af guði milli karls og konu, og enginn veraldlegur dómstóll geti breytt því“.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert