Umdeildur fáni og arfur þrælahalds

AFP

Árás á söfnuð kirkju svartra í Charleston í Suður-Karólínu hefur kveikt heitar umræður um kynþáttamisrétti í Bandaríkjunum. Níu manns létu lífið þegar ungur maður, Dylann Storm Roof, lét til skarar skríða í Emanuel A.M.E.-kirkjunni eftir að hafa setið með söfnuðinum í klukkutíma. Ástæðan fór ekki á milli mála. „Þið nauðgið konunum okkar og eruð að yfirtaka landið okkar,“ sagði hann að sögn vitnis.

Merki kynþáttakúgunar

Roof aðhylltist greinilega kenningar um yfirburði hvíta kynstofnsins og sveipaði sig oft merkjum kynþáttakúgunar. Á myndum af honum má sjá fána Suðurríkjanna, 13 hvítar stjörnur (ein fyrir hvert ríki) í bláum krossi á rauðum grunni.

Ýmsir hafa haldið ástfóstri við fánann og í Suður-Karólínu hefur hann blakt við hún. Mörgum blöskraði hins vegar þegar fánanum var flaggað í heila stöng fyrir utan þegar kista eins fórnarlamba Roofs, Clementu Pinckney, prests og þingmanns í ríkisþinginu í Kólumbíu, höfuðborg Suður-Karólínu, var látin standa í anddyri ríkisþingsins. Einhver setti svart tjald fyrir glugga svo að þeir sem vildu votta hinni látnu virðingu sína þyrftu ekki að horfa á fánann út um gluggann.

Herir Suðurríkjanna notuðu fánann á vígvellinum í borgarastríðinu 1861 til 1865 því að hinn opinberi fáni sem Suðurríkin tóku upp þegar þau klufu sig frá norðrinu þótti of líkur fána Norðurríkjanna.

Fáninn er víða notaður og þeir sem hampa honum segja að það sé í minningu arfleifðar Suðurríkjanna og hetjudáða þeirra sem börðust undir merkjum hans og komi kynþáttamálum ekki við.

Saga fánans er hins vegar samofin kúgun svartra því að á henni grundvallaðist samband Suðurríkjanna eins og skýrt kom fram í hinni svokölluðu hornsteinsræðu Alexanders H. Stephens, varaforseta Suðurríkjanna, í mars 1861: „Okkar nýja stjórn er einmitt grundvölluð á hinni gagnstæðu hugmynd; grunnur hennar er lagður, hornsteinn hennar hvílir á hinum mikla sannleik að negrinn er ekki jafn hvíta manninum; að undirokun með þrældómi gagnvart hinum æðra kynstofni er hans náttúrulega og eðlilega ástand.“

Þessi hugmyndafræði var að baki ofbeldi og morðum hvítu öfgasamtakanna Ku Klux Klan, sem fóru um með Suðurríkjafánann á lofti. Á milli 1882 og 1968 voru 3.446 svartir karlar, konur og börn hengd í Bandaríkjunum.

Tilgangurinn með hryðjuverkum Ku Klux Klan var að fylla blökkumenn skelfingu; þagga niður í þeim, skjóta þeim slíkan skelk í bringu að þeir dirfðust ekki að leita réttar síns, voguðu sér ekki að líta við hvítri konu og héldu sig á mottunni.

Roof virðist hafa verið einn að verki þegar hann framdi ódæðisverkið í kirkjunni en hann hefur greinilega ekki farið varhluta af þeim hugmyndum sem lýst er hér fyrir ofan. Hann sagði að svo vel hefði verið tekið á móti sér í kirkjunni að hann hefði verið að hugsa um að hætta við, en lét þó til skarar skríða.

Fimm dögum eftir tilræðið lýsti Nikki Haley, ríkisstjóri í Suður-Karolínu, yfir því að Suðurríkjafáninn ætti heima á safni. Hún getur hins vegar ekki fjarlægt fánann upp á sitt eindæmi. Til þess þarf 2/3 meirihluta í báðum deildum þingsins. Erfitt gæti orðið að ná því.

Hin pólitíska hlið

Forsetaframbjóðendur repúblikana hafa átt í vandræðum með þetta mál. Carly Fiorina, fyrrverandi yfirmaður Hewlett Packard, sagði að einu gilti um hennar skoðun og Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, sagði að þetta væri undir hinum einstöku ríkjum komið. Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður frá Suður-Karólínu, sagði fyrst að fáninn væri „hluti af okkur“ en eftir yfirlýsingu Haleys sneri hann við blaðinu og sagði að taka ætti fánann niður. Vendipunktur umræðunnar var þegar Mitt Romney, forsetaframbjóðandi repúblikana 2012, sem ákvað að bjóða sig ekki fram að þessu sinni, sagði á félagsvefnum Twitter að taka ætti fánann niður af þinghúsinu í Suður-Karólínu: „Í hugum margra er hann tákn um kynþáttahatur. Takið hann niður núna af virðingu við fórnarlömbin í #Charleston.“

Dylann Storm Roof.
Dylann Storm Roof.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert